Naglaævintýri í Florence

Ég er ein af þeim óheppnu að vera með neglur úr einskonar pappa eða einhverju mjög lítið sterku efni og þar sem ég er stödd í Flórens og neglurnar mínar afskaplega ræfilslegar þá sá ég þessa fínu snyrtistofu hérna rétt hjá og ákvað nú bara að skella mér, enda kostaði ekki lagfæring nema um 4.500.- krónur og ég er nú fastagestur í lagfæringum og tel mér trú um að ég viti nú eitt og annað um málið og  um snyrtimennsku á staðnum og svona, en ég á mér nú mína eigin naglakonu/snyrtifræðing sem skilur mig og ég hana og mun ég eigi gefa hennar nafn upp, nema það byrjar á E og ég segi ekki hina 2 stafina. Við erum á svipuðum aldri (gæti skeikað 15-20 árum) en hún er fullkomin fyrir mig og hlakkar mig alltaf að koma til hennar, í smástund í litun og plokkun og já neglur.

Þar sem ég mæti klukkan 7 um kvöld skv. tímapöntun tekur á móti mér mjög brúnn maður með sítt hár niður á herðar og mjóan hökutopp í útvíðum læknaslopp hnepptum niður á maga. Guð hugsaði ég með mér vonandi er hann ekki að fara að setja á mig neglur (blákalt=fordómar). Ok gefum kvikindinu séns hugsa ég með mér, en ég hafði ítölskumælandi dóttur mína með mér. Hann varð fyrir sjokki við að skoða neglurnar mínar og sagði að ég væri ekki kvenleg..(wriiiiiiiiiiiiiiiiily?) En það mundi breytast núna.

Hann hófst handa og ég hélt ég mundi andast þegar hann raspaði nánast upp að kjúkum, hélt að hann ætlaði í raun og veru að stytta puttana á mér. Svo var hann eitthvað að lufsast með einn bómullarhnoðra sem var uppleystur í frumeindir og allan tímann hugsaði ég til "minnar" konu heima hversu snyrtilegt væri nú hjá henni.

Niðurstaðan er svo þannig að ég þurfti að borga vegna þessara ógurlegu nagla minna 10.500.- en fékk ekta Swarovski stein frían, ég bað ekki um hann og langaði ekki í hann, en vildi ekki gera meira mál, svo hann færi nú ekki að gráta, en hann var gráti næst þegar ég gerði honum þann óleik að mæta með þessar neglur svona ósvífin.

Ég er með útvíðar neglur núna og ekki nóg með það, það eru gelklumpar undir þeim, þar sem hann fyllti uppí allt undir nöglinni að fingri og svo var hann alltaf að festa gúmmíhanskann sinn í líminu, þannig að ég er með búta úr gúmmíhanska líka í þessum hlunkum..

Ég er búin að panta tíma heima, enda með harðsperrur í fingrum og get ekki sett puttana saman.


Það sem kemur mér "spánskt" fyrir sjónir á Sardeníu.

Páskadagur á Cagliari höfuðborg Sardeníu, það er hádegi og ég skondrast út til að taka strætó á ströndina, það er ekki sála á götunum og eftir 40 mínútur gefst ég upp og geng heim aftur, enginn strætó gengur greinilega ekki á páskadag. Sem ég segi þeir fylgja gömlum hefðum, þó það kosti þá peninga frá ferðamönnum, en hvernig kemst fólk á ströndina ef enginn er strætó? Leið eins og Palla sem var einn í heiminum.

Ég komst svo daginn eftir á ströndina, sem er svo falleg og þar var ekki þverfótað fyrir fólki, en Sardeníubúar eða Sardar eru ekki endilega í sólbaði, þeir hanga á ströndunum í öllum fötunum og unga fólkið virðist nota ströndina sem samanstað til að hittast. Allir strandarbarirnir voru fullir af kappklæddu fólki og okkur hinum þessum skrítnu sem finnst það í lagi að fara í sólbað ef hitinn er 25 stig þó það sé ekki komin 15 maí. Þá er vattúlpunum pakkað niður og léttu fötin tekin fram, ekki fyrr.

Þetta þurfti ég nú að fá aðeins nánari upplýsingar um, eins og það að hafa ekki strætó á svona háannatíma eins og páskar eru, en Andrea minn sardeníski vinur sagði mér, að það væri svo mikil sundrung hjá stjórninni, það væru svo margir með svo misjafnar skoðanir, eins og hvað þetta varðar og eins með ströndina, sem er gullfalleg með fallegum börum, en á víð og dreif eru niðurníddar byggingar og órækt sem er alger sjónmengun, hann sagði mér að það væri vegna þess að stjórnin gæti ekki komið sér saman um þetta, einn hlutinn vildi loka öllum börum og hreinsa alla ströndina af ruslbyggingum um leið, en leifa fólki svo að vera frítt á sandinum. Hinn hlutinn vill ekki láta loka strandarbörunum, vegna þess að fólk þarf jú aðstöðu með börn og salerni oþh. Þannig að ekkert er gert, sama gildir um allt tengt ferðamannaiðnaði, eins og það að allt sumarið sagði hann mér að skemmtiferðaskip legðust að höfn á hverjum sunnudegi, en eins og hann sagði þá er hefðin gamla við völd og allt er lokað á sunnudögum, þannig að maður hugsar með sér, er enginn vilji til að bæta atvinnuleysið sem sendir margan unglinginn í burtu af eyjunni eftir nám. Svo virðist ekki vera, eða þá að enginn vill gefa eftir. 

Þessi vinur minn sagðist hafa skroppið á barinn á götuhorninu hjá okkur með vini sínum og fékk sér bjór, en þar sem hann er úr öðrum bæ, þá þurfti bareigandinn að kanna hvort hann væri lögregla og sagði við hann eruð  þið á bíl (ath. hérna fer allt fram eftir reglum og undir rós ekki bara spurt ertu lögga?) Já við erum á bíl svöruðu þeir og þá kom eigandinn með annan bjór í boði hússins, þá þann þriðja og þegar þeir þáðu hann (áttu víst ekki annarra kosta völ, því ef Sardi býður öðrum sarda eitthvað þá liggur eitthvað þar bak við og þú neitar ekki) því næst sagði hann, þú ert sá sami og ég, hvaðan kemur þú og vinur minn nefndi bæinn, sem er svo lítill að hann er ekki með löggur, svo þá var allt gott, allir sem komið höfðu inn í kippum til að vera til staðar fyrir bareigandann (ef löggan ætlaði sér að skipta sér af barnum) fengu sér bjór og skáluðu við þá. Þegar þeir svo fóru út, þá keypti vinur minn drykk handa öllum á barnum (það er venjan líka) svo þetta var kannski ekki ódýrasti bjór sem hann fékk gefins eftir allt. 

Einn siður er sá að þegar þú kemur inná bar, þá heilsar þú öllum sem fyrir eru, ef þú gerir það ekki, þá heilsa þér allir þ.e. ef þeir samþykkja þig, því þeir líta á það að þú sért að koma í þeirra hús, þar sem þetta er jú þeirra bar, þú ert gestur og gestir heilsa! 

Önnur regla er á börum á Sardeníu og sagði þessi sami vinur mér frá henni, en hún er sú, að þegar þú kemur inná bar í einhverjum bæ, þá situr gjarnan gamall maður fyrir framan barborðið með hníf og epli. Þú pantar bjór og hann horfir á þig, ef hann skrallar allt eplið þá þýðir það að þú færð þennan bjór en ekki annan, honum líkar ekki við þig. Drekktu bjórinn og farðu og allir vita hvað þetta þýðir, nema náttúrulega íslendingurinn og spurði ég hvað gert yrði ef ég bæði um annan bjór og sá gamli búin að afhýða allt eplið. Þér yrði sagt að það væri ekki til meiri bjór og staðnum væri að loka. þetta er víst eldgamall siður sem tengist langt aftur þegar glæpaklíkur réðu mismunandi bæjum og eða sveitafélegum.

Takk fyrir það.....já það er margt skrítið í kýrhausnum hérna á eyjunni fögru í suðrinu. 


Bloggfærslur 13. júní 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband