Ísland á Biðlista!

Ég get ekki orða bundist yfir grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag um hjón sem þurfa að vera aðskilin, þar sem hún er svo óheppin að vera með heilabilun og hjónin þurfa að eyða ævikvöldinu sínu sitt í hvoru lagi. Þegar kemur að hvíldarinnlögn er minni biðlisti á Húsavík og er henni bara skellt þangað. Hverskonar rugl er þetta eiginlega? Er eitthvað eðlilegt að fólk sem er með þennan sjúkdóm og þarf á sínum nánustu að halda sé bara skutlað á Húsavík eða þangað sem laust er pláss. Hvernig væri nú fyrir stjórnmálamenn að fara að skoða hvað er í gangi í þjóðfélaginu í raun og veru ekki eins og einhverjar hagtölur segja að hlutirnir séu. Er ekki nógu slæmt að greinast með illvígan sjúkdóm svo fólk þurfi ekki líka að glíma við hræðslu og kvíða því fylgjandi og vera aðskilin frá eiginmanni sínum. 

Nú skv. viðtali sem ég átti við forstjóra á hjúkrunarheimili fyrir nokkru kom þar fram að það væru 200 manns á biðlista, 100 heima hjá sér uppá fjölskyldu komin nú eða bara ekki og svo hinir 100 sem væntanlega eru þá á bráðadeild, spítalagöngum og já salernum.  Hún sagði mér að 75% aðila sem væru á þessum biðlistum lifðu ekki nægilega lengi til að komast inná hjúkrunarheimili.  það gerðist hjá pabba mínum, hann dó! Hann var á "biðlista".

Þurfi fólk að fara í hnjáliðaaðgerð, eða mjaðmaliðaaðgerð, þá er nú alla vega árs til tveggja ára bið, en þú getur fengið skjótari biðtíma ef þú nennir að hendast á Akureyri eða Akranes, þar er ekki nema svona mesta lagi hálfs árs bið. Þú lest bara nokkrar bækur á meðan þú ekki getur labbað. Hvað kostar það svo þjóðfélagið að senda sjúklinga í flugvél til þessara staða, væri ekki nær að setja þann kostnað til dæmis bara inn í heilbrigðiskerfið. 

Ég get nú ekki sleppt því að tala um fárveiku fíklana okkar sem bíða eftir innlögn á Vog svo mánuðum skiptir eða allt að 8 mánuðum í sumum tilfellum.  Það fækkar nú reyndar ört á þeim biðlista því mjög margir deyja á þeim, sem er eflaust heppilegt fyrir stjórnvöld.  Það er ekki eins heppilegt fyrir aðstandendurna sem sitja eftir í sorg og fyrir utan hvað það nú kostar að hafa fíkla í neyslu með öllum þeim fylgikvillum sem því tilheyrir.

BIÐLISTI fyrir einhverfu börnin okkar til að komast að í greiningu er svo um 2 ár, við erum að tala um barn sem getur bjargað sér fái það snemmtæka íhlutun og hjálp.  NEI 2 ár og svo eru svörin bara: "þetta er eðlilegur biðtími, ekki til fjármagn" Biðtímar eru eðliegir nánast á öllum sviðum þeirra sem þurfa hjálpar sem leita þarf til í heilbrigðisgeiranum. 8 mánuðir eru líka til að komast að í talþjálfun fyrir einhverfa og önnur eins bið í allt sem snýr að einhverfum börnum.

Eins og félagsráðgjafi barnabarns míns sagði þegar spurt var útí þessa endalausu bið: " Svona er Ísland í dag".


mbl.is 470 km skilja þau að
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband