Eldri borgari í heimsókn á Spáni

Ekki það að ég líti á mig sem eldri borgari verandi fyrirburi svona 27 ár fyrir tímann eins og ég segi gjarnan.  Oft er það þannig að þegar maður kemur úr stórum barnahópi þá er enginn elstur og enginn yngstur bara hópur af börnum á sama aldri.  Ég er ekki að afsaka það að ég sé orðin 68 ára gömul og hef nú verið talin heiðvirð og vel upp alin eins og ég á ættir til.

Þannig er að við mæðgur tókum á leigu fallega íbúð hérna á Spáni í gegnum íslenska leigustofu sem var okkur hjálpleg í alla staði og fengum við lykla að kvöldi til og verandi með 2 gutta þá neituðu þeir að fara eftir að við fengum íbúðina afhenta.  Flutningur skyldi það vera þetta kvöld og á ókristilegum tíma. Verandi berfættir labbandi um íbúðina að skoða og yfir sig hrifnir þá bankaði konan á hæðinni fyrir neðan okkur með kústi í loftið.  Við tipluðum á tánum og meira að segja kötturinn tiplaði en það var of hátt fyrir blúndurnar á neðri hæðinni.

Ég bankaði uppá hjá þeim daginn eftir og skýrði stöðuna fyrir þeim að jú þetta hefði ekki verið hentugur tími að flytja en við værum með 2 gaura sem voru yfir sig spenntir.  Ég sagði þeim líka að við værum með einn einhverfan dreng sem væri búið að vera mikið rót á vegna flutninga til annars lands. Þau skildu það vel en sögðu samt að þau væru ekki hrifin af börnum enda búin að búa ein í þessari blokk nánast í 2 ár með annað sett af eldri fýlupokum á hæðinni fyrir neðan þau. Hófst nú sambúð með þessu fólki, þau læstu hliðinu í hvert skipti sem við gengum um það, þannig að við á 3 hæð þurftum að hlaupa niður (lyftan biluð já í glænýju húsi) í hvert sinn sem einhvern bar að garði og verandi að flytja og koma okkur fyrir vorum við duglegar að panta inn matvörur og fleira dót og dengs frá Amazon en hliðinu var læst með 3 mínútna millibili samviskusamlega. 

Nú 3 dögum síðar sagði nágrannakonan sem var eins og hertur handavinnupoki buguð af þessum látum þegar eldri strákurinn labbaði um gólf hérna að degi til. Þau voru sko búin að vera eins og í einbýlishúsi í 2 ár og svo þetta!!!!!! Ég sagði þeim að þau ættu þá frekar að vera í einbýlishúsi í stað þess að halda að þau væru það.  Hún benti mér á að við með svona mörg börn (heil 2 stk) ættum alls ekki að búa í blokk.  Eigandinn hafði samband við íslenska leigugaurinn okkar og sagði að við ættum að fara út og fengju ekki endurgreitt nema ef vera skyldi leiguna fyrir október og tryggingu ef ekki væri allt brotið.

Eins og þetta væri ekki nóg.  Nú var staðan knöpp og við fengum vini til að taka ferðatöskur og forláta hengistól sem við höfðum keypt fyrsta daginn okkar í nýja húsinu fyrir eldri strákinn sem elskar að róla. Þau ætluðu að passa dótið okkar þar til við værum komnar í annað hús.  Ekki vildi betur til en að allir nágrannarnir þ.e. í næstu húsum skutu á fundi og hringdu í eigandann og tilkynntu að við værum að bera út húsgögnin þeirra og var sjónvarp sérstaklega tilkynnt. Eigandinn hringdi í íslenska leigusalann og sagðist ætla að senda lögregluna til að brjóta upp hurðina enda værum við alþekkt gengi sem sagt "moi" og dóttirin og ég væri prófessional þjófur sem stundaði þetta.

Íslenski gaurinn kom og var læstur inni með það sama af vinalegu nágrönnum okkar og tók myndir hérna úr íbúðinni af meintu stolnu sjónvarpi, sófa og því stærsta og ógeðslegasta glerborði sem sögur fara af með öllum styttum sem við höfðum reyndar hent inní skáp þar sem þær höfðu áhrif á fegurðaskyn okkar mæðgna.

Ég er 68 eldri borgari með fyrirburatendensa og er wanted dead or alive á Spáni!!!!


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sjö og sex?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband