6.4.2023 | 19:11
Huglægt frí á móti fríinu raunverulega
Þegar maður fer í langþráð frí eftir kannski erfiða tíma ja eða bara lífið sjálft sem tekur yfir dag hvern. Við hluti af fjölskyldunni lögðum land undir fót og settum stefnuna á Eistland sem faðir barnabarna minna er að vinna. Fyrst gistum við á hóteli í Tallin í 3 daga og svo skyldi haldið að ströndinni til Narva Jöesuu á hótel með verönd og 5 mínútna gang niður að strönd. Huglæga fríið: "Bara dásamlegt frí með litlum stilltum börnum sem sitja svona slaufum prýddir meðan við fullorðan fólkið borðum og spjöllum. Við vissum nú vel að við vorum ekki að lenda í neinu sólbaðsveðri en áttum nú ekki alveg von á snjóstormi og mannskaðaveðri og nánast ófærð á leiðinni. Vonuðumst bara til að geta setið á verönd með kaffibolla eða vínglas, alls ekkert of miklar væntingar. Það að geta sest niður með 2 gutta meðan pabbinn var að vinna svona 2 glaðar mæðgur í auglýsingu fyrir Úrval/Útsýn og börnin að sötra djús eða sprite og með skóflu og fötu á leið á strönd. Svo voru líka mall ferðir innifaldar í þessu væntanlega fríi, ekki að ég nefni allar spa ferðirnar á hótelinu (sem við höfðum sem betur fer ekki pantað) meðan drengirnir væru glaðir að leika með pabba sínum í sundi þar sem þeir hafa ekki séð hann í 3 mánuði."
Veruleikinn: "Flugferðin til Helsinki var 3 og hálfur tími af "horror" ekki strákunum okkar að kenna, heldur lentum við á bak við breta sem var svo geðvondur og bað okkur að plís taka skóna af yngra barninu því hann fékk svo mikla bakáverka við að tærnar hans rákust í "spænið" hans...sá yngri er sko örfáir cm. að stærð eða rétt um 90cm. Nú eldri strákurinn sem er með dæmigerða einhverfu hafði svo alltof mikinn hávaða í Ipadnum "it hurt my ears you see" sagði hann blíðlega en smá svona "vá hvað þetta eru illa uppalin börn svip. Við lækkuðum svona 10 sinnum og enduðum á heyrnatólum sem er ekki auðvelt því hann er með svona hljóðeinangrunarheyrnartól og er ekki til í að breyta því um sinn. Niðurstaðan varð því sú að við skiptum og settum þann einhverfa á bak við bretann og hófust þá skellir í sætinu aftur og aftur opnaði hann og lokaði borðinu við gríðarlegan "fögnuð" þess breska. Bretinn endaði á að skipa konunni sinni að skipta við sig en hún sat hinum meginn við ganginn. Hefndin var fullkominn á þennan leiðinlega vel snyrta breta með allt sitt stóð í gönguskóm að koma af Keili væntanlega og þegar hann flutti sig yfir í sæti konunnar sinnar þá róaðist okkar gaur og konan fann ekki fyrir neinu af hans hálfu en barnið sem hafði sofið alla leiðina frá Íslandi ákvað að vakna þegar bretinn settist við hliðina á henni og stóð á orginu alla leið til Helsinki.
Hótelið var æðislega fínt í Tallin og 3 góðir veitingastaðir en sá eldri var búin að ákveða það að hann bráðvantaði McDonalds blöðru og það var megin tilgangur hans til Eistlands að verða sér út um eina slíka. Pabbinn fór í leiðangur á nokkra staði og fann blöðrur, en þá var komið að ósk númer 2 sem var Subway blaðra. Hún fannst ekki með tilheyrandi niðurbroti og gráti.
Nú við skelltum okkur í bílinn og hófum 3 tíma akstur til Narva Jöesuu í brjáluðu veðri sem gerði allan skóginn á leið okkar frá Tallinn mjög jólalegan enda svignuðu trén undan snjóþunganum en það var nánast ófært og erum við litlu víkingarnir nú öllu vön.
Þetta hótel í Narva bauð uppá spa og m.a. sundlaugargarð og nokkra matsölustaði sem okkur hlakkaði til að nota meðan pabbinn var í vinnunni. NEI ekki að ræða það!!!Það var ekki í áætlun eldra barnsins. Í lobbýinu voru 3 fánar sá eistneski, evrópufáninn og hótelfáninn. Hann vildi kaupa þessa fána og Eistarnir skildu ekki þetta arfavitlausa barn sem benti á fánana og heimtaði öll stykkin og drógum við hann út sparkandi og öskrandi. Við fórum að sjálfsögðu í fánaleit daginn eftir og keyptum 3 eistneska fána, en búðin var svo léleg að vera ekki með hina fánana. Nú kom ný krafa eftir að fánarnir voru komin í hús en það var sólblóm og það var ekki heldur til í búðinni(mjög léleg búð greinilega) Við keyptum basiliku og sögðum honum að blómin væru ekki komin á plöntuna en hann lætur nú ekki ljúga að sér og googlaði sólblóm og því var leiðangur númer 2 fyrir pabbann eftir vinnu að finna sólblóm að öðrum kosti ekki koma heim. Margir gætu hneykslast af þessu dekri en við eigum ekki annarra kosta völ ef við viljum smá frið sem dugir ekki lengi. Það er erfitt að aðlagast nýjum stöðum fyrir hann og allar breytingar taka mjög á hann. Við fengum ekki að snerta basilikuna því það var barnasólblóm sem hann gætti vel. Íbúðin er núna þannig að hérna eru svona uþb. 20 blöðrur uppblásnar 50 óuppblásnar, 2 sólblóm, stór basilika og svo fæ ég ekki símann minn því hann er að hringja í N1 og Stöð 2 til að reyna að panta blöðrur en hann er mjög hrifinn af þeim logóum. Hann googlaði bara símanúmerið og hringdi reyndar til Albaniu því hann kunni ekki landsnúmerið og stoppar ekki síminn minn með einhverjum dularfullum númerum sem ég hef greinilega hringt í sjálf.
Fengum smá heimsókn af slökkviliðinu hingað í morgun þar sem var verið að reyna að gera mat fyrir prins Valiant en hann vill sko pulsubrauð í örbylgjuofni sem var víst stilltur á grill og já það urðu læti en það fékkst þó mynd af gaurunum."
Við borðum heima núna alla daga því ekki förum við í lobbýið fyrr en við förum til Tallin á sunnudaginn.
Byrjar ekki alveg eins og huglæga fríð okkar var áætlað en það sem ekki drepur mann gerir mann sterkari og við erum mjög sterkar mæðgur með einn 7 ára sem er með einhverfu og skilur ekki heiminn eins og við og einn 3 ára sem skilur of mikið og fer sínar eigin leiðir og verslar eftir sínu höfði og þar sem við erum alltaf að passa uppá eldri strákinn þá kemst hann upp með ýmislegt. Ég vildi þó hvergi annarsstaðar vera en með þessum snillingum.
Gleðilega páska.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.