21.11.2017 | 07:39
Vatnabærinn Xitang í Kína.
Það er nánast ekki hægt að sleppa Xitang ef maður er á slóðum þess, en Xitang er einskonar Feneyjar Kína en það er gamall vatnabær í um 140 km. fjarlægt frá Nantong í héraðinu Zhejiang og er erfitt að rata þangað, nema fyrir heimavana, enda held ég ekki að útlendingar megi eða geti keyrt í Kína, þar sem öll umferðarskiltin eru á kínversku svo ekki auðvelt fyrir útlendinga að rata. Við keyrðum í gegnum endalausa hrísgrjónaakra að því er virtist og var gaman að sjá fólk bograndi með nauðsynlegu Kínastráhattana sína í sólinni. Leiðin lá í gegnum marga bæi, held ég megi segja sveitabæi, allavega var mikið af sölufólki við veginn að selja ávexti og grænmeti og hef ég aldrei smakkað sætari appelsínur en þarna, en þetta er víst svæði sem er frægt fyrir sætar appelsínur. Milli ávaxtasalanna og búða og verkstæða, héngu svo föt á snúrum út um allt, já heimilisþvottinum skellt á "Laugaveginn" svona bara til þerris.
Þegar við komum til Xitang á hótelið okkar, þurftum við að kaupa okkur miða eða passa til að komast í sjálfa vatnaborgina, en það er hlið sem enginn sem ekki býr í borginni fer í gegn án miða en þú færð að fara 3 x á kr. 1500.- en getur farið óhindrað fyrir 11 á morgnana og eftir 5 á daginn. Vatnaborgin er mjög gömul og minnir um margt á Feneyjar, það er mikið um túrista þarna, kínverja aðallega, en við sáum þó nokkra evrópubúa. Þarna eru göturnar mjög þröngar og þú ferð ekki hratt yfir, allt troðið af fólki allstaðar, allar brýr fullar af fólki að taka myndir, en síkin eru græn stundum og mjög falleg en ólíkt Feneyjum er ekki vond lykt þarna enda allt fullt af götusölum með grillaðan mat svo sem rækjur, endur og sporðdreka og gott ef ég sá ekki köngulær líka, mjög stökkar. (sleppti þeim þó)
Þeir selja mjög falleg kínversk vönduð föt þarna, sem eingöngu eru til sölu þarna og er allt á yfirsprengdu verði en samt ódýrt, nema barirnir sem eru þeir allra flottustu sem ég hef séð, þar sem allt er mjög dýrt fyrir túrista en þeir eru svo framarlega í allri tækni að þú pantar þér bjór og léttvín eða kaffi með símanum og borgar með símanum, og þá færðu þetta á sama verði og gengur og gerist hérna almennt, við borgum hins vegar íslenskt verð nánast.
Þar sem ég er með einsdæmum klígjugjörn þá gat ég eiginlega ekki borðað þarna, ég meina hvað ef ein stökksteikt könguló hefði nú óvart ruglast í minn mat, ok segjum bara að ég sé pempía. Borðaði einu sinni annarsstaðar en á Mc donalds sem var þarna sem betur fer og þá fékk ég mér pizzu og hún smakkaðist eins og gúllassúpa og lét ég það duga sem matarsmakk í Xitang. Bragðlaukarnir þeirra eru mun öðruvísi en okkar, ég meina ísinn er búinn til úr rauðum baunum og smakkast eins og rauðar baunir og Durian ógeðisísinn smakkast eins og ég geti ýmindað mér að skítugir sokkar smakkist.
Sem sagt þetta var æðisleg upplifun, nema matarlega séð en kommon það er alveg rómantískt að sitja úti við síkin og borða ef maður er til í að láta borða sig líka af moskítóflugum, en það var ekki þverfótað fyrir þeim. Eins og ég segi alveg nauðsynlegt að fara þarna vegna fegurðar, vopnaður nesti og moskítósprayi og svona flugnahatti þá er maður góður.
Gusla chinagirl "hálfétin" en sæl kveður að sinni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.