20.5.2016 | 08:55
Varist að fara inná rangan bar á Sardeníu
Síðustu helgi fórum við til Sarroch (heimabæjar tilvonandi tengdasonar) á matsölustað sem er í miklum metum hjá heimamönnum. Við áttum borð klukkan 9 um kvöldið og ætluðum að hitta félaga parsins unga. Vorum snemma á ferðinni og ákváðum að kíkja bara á barinn áður en við fengjum okkur að borða. Beint á móti matsölustaðnum var þessi líka fíni barinn með stólum og borðum fyrir utan og ég sagði förum hingað. NEI ertu ekki í lagi sagði tengdasonurinn, þetta er ekki "MINN" bar. Hann rifjaði upp fyrir mér söguna af gamla manninum sem situr fyrir framan barborð á næstum hverjum bar í Sardeníu, sem situr þar með epli og hníf og ef þú ert Sardi og kemur inná rangan bar þ.e. bar sem þú ert ekki fastagestur á, þá getur sá gamli tekið uppá því að flysja eplið og er með því að segja: "drekktu þennan eina bjór og hypjaðu þig svo, ef þú vilt ekki verða rúin innað skinni". Þeir eru ekki að nota neitt of mikið af orðum og hef ég orðið gáttuð á því að komast að því hvað bendingar og hlutir þýða meira en orð. Einnig skaltu heilsa öllum með höfuðhnykk á barnum, þar sem þeir sem þar eru "eiga" þennan bar og líta svo á að þú sért að heimsækja þá (væntanlega þá hvern og einn fyrir sig).
Vinur okkar sagði okkur frá því, þegar við komum á "Rétta" barinn og frétti að ég hefði ætlað inná þennan bar að hann hefði farið inní mið Sardeníu þar sem gilda víst mun strangari barreglur. Þannig er að þar færðu ekki að borga þ.e.a.s. ef þú færð að drekka fyrir það fyrsta og ef þú færð að drekka, færðu ekkert endilega að fara heim, fyrr en formlegt leyfi er á það gefið. Max þessi vinur okkar hafði sem sagt farið að hitta gamlan herfélaga sinn og spurði gamlan mann á bar í hans hverfi hvort hann kannaðist við Alfonso, "NEI" aldrei heyrt á hann minnst svaraði hann og allir aðrir á barnum sem báru við algeru þekkingarleysi.
Max drakk sinn bjór og fór út, þar stóð ung kona og sagði ertu að leita að Alfonso? Já svaraði hann og benti hún honum á húsið beint á móti barnum og sagði: "hann býr þarna" Alfonso tók vel á móti Max vini sínum og bauð honum í kvöldmat ásamt foreldrum sínum, sem bjuggu í sama húsi. Faðirnn reyndist vera gamli maðurinn á barnum og sagði hann að hann hefði haldið að Max væri kannski ennþá í hernum og þeim líkaði ekki við hermenn, eða löggur og þar af ekkert að upplýsa um eitt eða neitt. Konur eru heldur ekki tíðir gestir á börum hér og mér finnst stundum eins og ég sé komin 50 ár aftur í tímann.
Max komst heim til sín eftir 4 daga og þá búin að hitta allt þorpið, borða með þeim og drekka, fékk ekki að borga krónu, þeir láta það ekki spyrjast um sig, en heldur ekki að fara heim fyrr en eftir sómasamlega kynningu.
Talandi um að skreppa í heimsókn
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.