Leynist lítill Stenmark í Stelpunni?

Nei ég held ekki.  Skíðaferill minn spannar nú alveg 25 ár, en eiginlega er hægt að "súmma" hann upp í 3 ferðir, sem allar enduðu með skelfingu.

Taka 1. Ég giftist inní hvílíka skíðafjölskyldu að það hálfa væri meira en nóg, eiginmaður minn var svona Stenmarkstýpan, með allt á tæru og skíðin eins og eðlileg framlenging á fótunum.  Nú skyldi farið með barnunga brúðina sína á Akureyri í skíðaferð, leigð voru handa mér skíði og öll stórfjölskyldan mætt í fjallið klukkan 9:00 á staðartíma. Ég gekk með skíðin að lyftunni og eiginmaðurinn sagði komdu með mér í stólinn. Já já þetta hljómaði nú ekkert svo illa, ég gat hæglega setið í einhverjum stól og látið flytja mig þarna upp á topp. En guð minn góður mig sundlaði, og ég fraus og missti á einhverjum tíma meðvitundina, ég er svo lofthrædd. Svo þegar upp var komið og honum tókst að opna slána, sem ég var föst við og ýta mér út úr sætinu, ég man ekkert þegar hér var komið, enda stjörf af hræðslu. En jú jú mér tókst að renna mér niður brekkuna (stallinn) og fannst þetta nú ekki mikið mál, en þá var allt fjallið eftir.

Stenmark (eiginmaðurinn) kenndi mér að fara í plóg og ég gerði það, myndaði svona þrefalt V og held að fæturnir hafi verið í sitthvoru póstnúmerinu, svo góðan plóg tók ég.... hann var nú ekki sá þolinmóðasti og þegar ég ætlaði að bremsa einhverju sinni með tánni, þá vildi ekki betur til en að ég festi tána í skafli og sneri mig og fékk þar með mín fyrstu íþróttameiðsli. Nú ég komst niður með því að labba á hlið og beit á jaxlinn, þar sem mig verkjaði svo í hnéð.  Komst við illan leik niður á plan og ætlaði úr þessu spaðarusli, en úps! þá fór ég af stað, aftur á bak og yfir götu og út í grjót og endaði á góðum hnullung, ég hélt nú að þarna væru dagar mínir taldir.  Ég settist öll "krambóleruð" og skíðaferðin hjá mér á enda, þegar Stenmark kom og spurði hvað ég væri að gera hérna megin fjallsins....Skoða steina hvæsti ég milli tannanna, og eftir það var ég á hótelinu að passa börn, með hækjur.

Taka 2. Allmörgum árum síðar, ákvað vinnustaðurinn minn að halda í skíðaferð og vinkona mín hvatti mig að koma, enda hún alinn upp á Akureyri og væntanlega fæðst með skíðin á löppunum. Ég hugsaði nú með mér, ég er þroskaðri en síðast og verð ein, enginn Stenmark að siða mig og kenna, hann ætlaði að vera heima með skíðabörnin sem voru komin í heiminn og voru lasin. Jú ég ætla get og skal. Átti þessi splunkunýju ónotuðu skíði, sem ég tók með mér.  Leggjandi allt mitt traust á vinkonu mína, sem sagði mér að hoppa allt í einu, þegar upp var komin, en ég var þá meðvitundarlaus, þar sem lofthræðslan hafði greinilega ekki "þroskast" af mér. Stökktu sagði hún stökktu! en ég var komin framhjá og var að fara niður aftur, guð minn góður átti ég eftir að deyja hérna, svo ég stökk rétt áður en ég kom að niðurferðinni og jú jú þetta var í lagi,  lenti bara vel eftir stökkið, en datt svo aftur á skíðin í "slow motion" og nema hvað ég rann af stað, inní þvöguna hjá vinnufélugunum, sem voru að opna kampavín í tilefni þess að allir voru komnir upp.  Ég tók nokkra vinnufélaga með mér og festi stafina mína í öðrum. Kolla vinkona mín öskraði og öskraði farðu í plóginn...hvernig átti ég að gera það með rassinn á afturhluta skíðanna. Ferðin jókst og fólkinu tókst fimlega að losa sig undan mér, en ég hélt áfram að renna. Kemur þá ekki engill sem var að vinna mér mér, afskaplega druslulegur greyið, hafði greinilega lent fyrir skíðastaf (num mínum) og renndi hann sér fyrir framan mig og stöðvaði mig, reisti mig við og fór með mig í plóg niður. Ég elska þennan mann enn í dag, en ber við minnisleysi hver þetta var, enda ekki alveg með á nótunum. Ég var töskuberi, það sem eftir lifði ferðarinnar. 

Taka 3. Nú þar sem skíðabörnin okkar fengu skíði í vöggugjöf, var alltaf sama viðkvæðið um helgar, komum uppí fjall!!! Ég var búin að nota allar slíkar helgar í bráðatiltekt og allskonar svo ég þyrfti ekki að fara með, en börnin mín voru svo spennt að sína mömmu sinni hvað þau voru klár, svo ég lét til leiðast, ef þau gætu þetta, þá hlyti ég að vera með eitthvað skíðagen í mér. Ég fór í barnabrekkuna og tókst að bæta mig verulega, var komin með báða fæturna í sama póstnúmer, nánast hætt í plógnum, og er að renna mér niður í 5 sinn, alveg brosandi stolt og sá að börnin mín voru það líka, þegar þau þeystust fram hjá mér í hraðlyftu, ég var í byrjendalyftunni. Þar sem ég hugsaði með mér já þetta er líklega að koma, þá fann ég allt í einu hræðilegan sársauka í rassi og læri og hafði ég fengið einn lítinn skíðasnilling inní bakið á mér, og við ultum niður brekkuna með skíðin í ruglinu og stafina í ennþá meira rugli. Stenmark kom nú og leysti okkur í sundur, nema hvað skíðin mín fóru sjálf niður á meiri hraða, en þau höfðu prufað áður. Ég var marin frá kálfa og uppá haus, og gat ekki legið í viku, tók þessi glansandi fínu skíði og pakkaði þeim niður og beið í bílnum þar til fjölskyldan var búin að fá nóg.

Ég lánaði skíðin mín, vinkonu sonar míns og bað hana að skila þeim ekki aftur í bráð. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: www.zordis.com

Áts hehe  ég lofa að espa þig ekki upp í Skálafell eða Bláfjöll, promise

www.zordis.com, 23.1.2013 kl. 15:20

2 Smámynd: Guðlaug Björk Baldursdóttir

Þórdís NO CAN DO...sorry á engin skíði lengur.....annars væri það ekki spurning..

Guðlaug Björk Baldursdóttir, 23.1.2013 kl. 15:33

3 identicon

Gulla mín spurning hvort saumaklúbburinn skelli sér ekki í eins og eina skíðaferð. Þá meina ég til útlanda. Er ekki í nokkrum vafa að þar myndir þú blómstra, þetta er bara spurning um réttan stað og stund ;)

Ella (IP-tala skráð) 24.1.2013 kl. 01:37

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Dásamlegur lestur, þú kannt þetta frábærlega Guðlaug takk fyrir mig.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.1.2013 kl. 12:01

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þú einfaldlega drepur mig krakki. ARG.

Jenný Anna Baldursdóttir, 29.1.2013 kl. 11:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband