23.10.2011 | 12:16
Hætturnar leynast víða
Ég fór í Ikea í gær, sem er nú ekki í frásögur fæarandi, enda staðurinn annálaður helgarstaður okkar Íslendinga.
Það var jólastemming í loftinu þar í gær og jólailmur og troðfullt af fólki og greinilegt að allir eru komnir í jólagírinn snemma í ár.
Þar sem ég ýti á undan mér níðþungri kerrunni fullri af "nauðsynjum" til jólanna, þá finn ég allt í einu hvar buxurnar toguðust niður um mig. Ég hafði fest þær í kerruhjólinu og þær toguðust niður um mig.
Já ég stóð þarna og gat ekki hreyft mig innan um mannfjöldann og ekki var hjálp að fá hjá vinkonu minni sem emjaði úr hlátri yfir þessum óförum mínum. Mér fannst þetta nú ekki eins fyndið að vera föst við 110 kg þunga kerru og sá fram á að þurfa að láta klippa mig frá henni.
En ég gafst ekki upp og hoppaði á annarri löppinni inní næsta eldhús og hóf að losa mig og það tókst að lokum með því að rífa þær af við hné eða svo. Næst fer ég með hjólaband um ökklana og jafnvel með skæri í vasa.
Við ákváðum svo að fara að fá okkur að borða enda einn af fáum matsölustöðum sem venjulegt fólk hefur orðið efni á að heimsækja.
Það eru alltaf útlendingar að afgreiða í matsölunni sem er í góðu lagi min vegna, en verra að það er ekki alltaf skilningur á því, hvað verið er að biðja um.
Ég bað um 10 kjötbollur og kjúkling. Konan sagði eitthvað óskiljanlegt og ég hváði. Hún endurtók: "vittu sósogsuttu?" já takk sagði ég. Svo skellti hún einhverju gumsi á disk og ýtti að mér. Ég ýtti því til baka og sagðist vilja kjúkling ekki þetta.
Hún ýtti disknum staðfastlega til baka og sagði: "þú segja kjúklingaréttur og þú BORÐA kjúklingaréttur" ok sagði ég smá hrædd og spurði vinkonu mína ætli ég megi fá mér hvítvín með "kjúklingaréttur"? Þetta var eiginlega bara viðbjóður þessi kjúklingaréttur og kús kússið. Ég hata kúss kúss.
Næst!! muna að panta bara kjötbollur "sósogsuttu"
Athugasemdir
ARG! Lenti einu sinni í því að þurfa að biðja um plástur þar sem blæðing vegna ÁREKSTURS VIÐ KERRU reif nánast af mér þumalfingur hægri handar.
Yndisleg stúlka frá útlöndum skildi mig ekki og ég ekki hana. Tók leikræna útgáfu á slysinu og hún hló og hló.
Þetta endaði nærri því illa.
Jenný Anna Baldursdóttir, 23.10.2011 kl. 12:51
Skellihló nú að þessu! Það mætti nota Ikeadæmið þitt í bíómynd.
Steinvör (IP-tala skráð) 24.10.2011 kl. 23:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.