28.9.2011 | 11:28
Feneyjar/drottning Adríahafsins/eða sökkvandi borgin?
Feneyjar eyjaklasinn norðanlega á austurströnd Ítalíu, eru ofmetnar að mínu mati, eða alla vega þegar ég var stödd þar í júlí í 40 stiga hita, þá fannst mér nú ekkert rosalega sjarmerandi við þennan stað. Feneyjar eru reistar á mörgum hólmum og er helsti ferðamáti fólksins á bátum enda síki í stað gatna víðast hvar.
Gondólarnir eru vinsæll ferðamáti fyrir túrista og þá ekki síður fyrir brúðhjón, en þeir eru rándýrir og kostar um 100 evrur að fara í hálftíma ferð með ræðara.
Ekki finnst mér nú neitt svo rómantískt við þessa báta eftir að leiðsögumaðurinn okkar sagði frá því að ein margra sögusagna um gondólana væri sú að þeir hefðu verið notaðir sem nokkurskonar líkkistur um árið 1600 þegar plágan geisaði og það væri ástæðan fyrir svarta litnum og lögun bátanna, sem eru breiðari í annan endann, til að hægt væri að stafla líkum um borð. Það var svo árið 1633 að bannað var mála þá í litum og þar sem tjaran var vatnsheld, þá voru þeir bara tjargaðir svartir og héldust þannig fram á daginn í dag. Ég sá alla vega ekki neina aðra liti á gondólunum, þegar ég sigldi um sýkin.
En sagan segir líka að Gondólar hefðu verið faratæki efnameiri fólksins í Feneyjum, sem klæddu sig upp fyrir ferðirnar til að sýna sig og sjá aðra og er mismikið lagt í innviði gondólanna, sumir flauelskæddir og gullskreyttir, meðan aðrir eru hráir að innan.
Nú Feneyjar eru náttúrulega ekki alveg ómögulegar, þó ég sé ekki eins heilluð af þeim og flestir virðast vera, en mér fannst ég bara vera að sigla á skítugum polli, og ræðarinn sem söng af innlifun, var nú svo sem krúttlegur og virtist ekki finna neina lykt, en sum síkin voru verri en önnur og stundum fannst mér ég vera að kafna þarna í þessum skítapolli í 40 stiga hitanum.
Markúsartorgið er þungamiðja eyjarinnar og er gaman að sitja þar og horfa á túristana í dúfnahópnum sískemmtilega og ekki verra ef maður er efnaður og getur leyft sér að borga 2000 ísl. krónur fyrir kaffibollann (reyndar árið 2008, þegar krónan var sem veikust).
Mjög algengt er að sjá brúðhjón og hóp af veislugestum þarna á torginu á leið í gondólaflakk.
Markúsarkirkjan er náttúrulega einhver sú fallegasta og frægasta kirkja heimsbyggðarinnar, enda hvelfingin úr gulli og er talið að um 600 ár hafi tekið að gera hana, en menn verða að þola vopnaleit og afhenda myndavélar, eins eru þeir með "dresskód" þú mátt ekki vera með berar axlir og karlmenn ekki vera í stuttbuxum.
Feneyjar og Mestre eru tengdar saman með brú en í Mestre eru mikið af hótelum og verslunum og vöruhúsum og gaman að skoða þar ítalskan tískuvarning. Feneyjar eru frægir fyrir grímurnar sínar og finnst mérað menn eigi að láta það eftir sér að kaupa sér eina slíka, enda vandaðar og mjög fallegar. Feneyjarkristallinn er líka ofsalega fallegur og hæglega hægt að gleyma sér fyrir framan gluggana á búðunum sem eru í röðum þarna.
Athugasemdir
Er einmitt að spá að fara til feneyja í febrúar þegar grímu carnivalið er og þá líka held eg mun minni lykt þar sem það er ekki heitt :)
Ansy Björg, 28.9.2011 kl. 12:52
Ég hef heyrt mjög marga segja það sama og þú um Feneyjar. Overprized. Mig langar ekki þangað, amk. ekki fyrr en ég er búin að sjá alla hina dásamlegu staðina sem þú ert búin að blogga um.
Love yer.
Jenný Anna Baldursdóttir, 28.9.2011 kl. 12:57
Anna mín líst vel á það, er eiginlega skömm, þar sem þú býrð rétt í túnfæti Feneyja að þú hafir ekki farið þangað, ég meina m.v. söguna og svona þarf maður að koma við þar. Jenný mín við sleppum eyjunum og tökum Amalfi á línuna bara.
Guðlaug Björk Baldursdóttir, 28.9.2011 kl. 16:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.