20.9.2011 | 12:23
Bloggdólgar, flugdólgar og aðrir dólgar!!!
Vinkona mín spurði mig hvort ég ætlaði að verða næsti "bloggdólgur" hm hugsaði ég, því ég áttaði mig ekki alveg á því hvað það felur í sér að vera bloggdólgur, þekki fbdólgana með tilvitnanirnar í Oscar Wilde 5 sinnum á dag en varð þá hugsað til flugdólgsins sem ég var svo "heppin" að hafa í sæti fyrir aftan mig í 7 tíma ferð til Kaupmannahafnar, (já það var bilun og svona)
Ég var á ferð þangað til að fara með litlu fósturdóttur mína og frænku í Tívólí, en það voru verðlaun fyrir að standa sig vel í skólanum. Systur mínar nokkrar voru með í för og vinkona sem er mjög flughrædd. Þessi sem fer í frauðplasti inní vélina, búin að gleypa 3 róandi og skola þeim niður með bjór, situr með hvíta hnúana og heldur sætinu fyrir framan sig í gíslingu. En hún er mjög skemmtileg þegar á ferðina líður og er ekki neinum til vandræða, brosir og verslar bara svona í rólegheitum. (spennt í beltin og að sjálfsögðu með hjálminn á höfðinu)
Nú þegar við höfðum setið "spennt" í beltin á jörðu niðri í svona 2 tíma, og litla frænka mín var farin að ókyrrast hún vildi komast í tívolíið, þá var "skemmtikrafturinn" í sætinu fyrir aftan okkur orðin svo vel slompuð að hún var farin að syngja hástöfum, (kona á miðjum aldri með vinkonu sinni, sem var nú tekin að síga neðar og neðar í sætið). Flugfreyjan kom og bað hana að leggja líters Grand flöskuna niður ekki væri heimilt að vera með vín, nema það sem selt væri um borð.
Það er sko svo léleg þjónusta "hédddna" sagði hún að maður verður að fá eitthvað við þessum "þosda" Vesalings ameríski maðurinn sem sat við hliðina á henni, bað ítrekað um að fá að standa bara, þar sem ekki var laust sæti í vélinni. Hún var komin svona kæruleysislega með volduga löppina yfir hann og hann varð eiginlega svona hálfgrænn í framan greyið. Ekki öfundaði ég hann nú, þegar hún ákvað að taka upp "snakk" sem hún hafði keypt í fríhöfninni. Já "HÁKARLABOXIÐ" og sagði með hákarlabitann lafandi út úr sér, Vúddjúlækasjork? No? Grend Meiriner? No? Jú amerikens ar allalæk og svo kallaði hún yfir næstu sætisraðir, er ég kannski dóni að opna hákarlabox?
Já nú var hæglætisljúfmenninu með jafnaðargeðið mér (það segir vinkona mín alla vega) nóg boðið!.
"Já þú ert dóni og ógeðsleg lykt hérna og það hlýtur að standa í einhverjum flugreglum að hákarl sé bannvara um borð og ef þú hættir þessu ekki og lokar þessu boxi, þá læt ég setja á þig nálgunarbann og henda þér útá væng" hvæsti ég kurteisislega.
Hún var frekar móðguð yfir þessari óvægnu árás á sig, sem var bara aðeins að fá sér drykk og snakk, þá sjaldan menn lyfta sér upp.
Þannig að þá ákvað hún að verða flughrædd, hringdi stanslaust á flugþjóninn, (flugfreyjurnar voru allt í einu uppteknar annarsstaðar) og sagði hvenær hröpum við??? Viltu ekki blað að lesa sagði flugþjónninn elskulega? "Nei ætla ekki að vera öll í prentsvertu þegar við lendum í Atlandshafinu" og litla frænka mín spurði: "Erum við ekki í vitlausri flugvél, ég hélt að við ætluðum að lenda í Kaupmannahöfn?"
Vinkona mín (sú flughrædda) var nánast búin að brjóta sætisbakið fyrir framan sig, af hræðslu, þegar hún heyrði þetta með hrapið. Náði í vestið undan sætinu (betra að vera við öllu búin) og bað mig að leita uppi björgunarbátinn, þar sem hún hreyfir sig ekki úr beltinu fyrr en vélin er að fullu stöðvuð.
Sem betur fer týndist þessi "skemmtikraftur" við komuna til Kaupmannahafnar, en hún ranglaði í vitlausa röð og endaði í Svíþjóð, við sáum vinkonuna sem leitaði að henni út um allt með veskið hennar og síma. Mér fannst það ekkert leiðinlegt.
Já svo er það "sjúklingadólgarnir" þessir sem liggja á bjöllunni, ætla að fá 1. flokks þjónustu og kvarta ef þeir lenda í herbergi með öðrum. Halda að þeir séu á "hótel Sanderson" Lenti í herbergi með svona "dólg" einu sinni, sem trylltist ef ég setti sjónvarpið á (lágt stillt) en kveikti svo á fréttunum og ég er ekki frá því að ég hafi fengið gat á hljóðhimnuna við hávaðann. Dauðir hefðu risið upp! Gangastúlkan kom og gargaði hvort hann væri heyrnaskertur? Nei bara að yfirgnæfa hávaðann í henni hérna við hliðina sagði hann. Ég lagði frá mér prjónana, ákveðin í að valda ekki svona miklum hávaða framar.
Athugasemdir
Já, meiri dólgslætin í þér kona hehehe
Dásamleg
www.zordis.com, 20.9.2011 kl. 12:52
èg get svo svarid fyrir af èg held èg hafi sèd tad à flugreglum.com/Icelandicversion!!!!! :)
Ansy Björg, 20.9.2011 kl. 13:08
Hahahah, veistu, lyktin situr betur í minninu heldur en allt hitt.
Helena Kristins (IP-tala skráð) 20.9.2011 kl. 13:18
Haha Gulla þú ert frábær!
Ástríður Þórey Jónsdóttir (IP-tala skráð) 20.9.2011 kl. 13:19
Ég dey, þú drepur mig. ARG
Jenný Anna Baldursdóttir, 20.9.2011 kl. 14:03
"Bloggdólgar", lykta af þráhyggju, dassi af athyglisbresti og húmorsleysi! Þessi pistill er gjörsneiddur öllu þessu.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 20.9.2011 kl. 14:18
snillingurinn minn... Thad sem ther ekki dettur i hug.. bid spennt eftir næsta bloggi.
Erna Kolding.. (IP-tala skráð) 20.9.2011 kl. 16:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.