6.3.2016 | 15:27
"Óhreinu börnin hennar Evu"
"Aldraðir og öryrkjar" eru oftast nefndir saman sem ein heild, oftast tengt neikvæðri umræðu, sem flokkur sem er bara með vesen og usla. Ég sé ekki að 20 ára öryrki eigi neitt sameiginlegt með öldruðum, annað en vera settur í sama "ruslflokk" og ekki skrítið að fáir hafi mætt í mótmæli við Tryggingarstofnun Ríkisins í gær, þar sem fæstir vilja láta opinbera sig sem þetta "vesenisfólk" í þessum flokki. Fólk hefur bara frekar kosið að vera bak við luktar dyr, en að birtast opinberlega sem þessir "vesenistar" að krefjast mannréttinda eins og hver annar, á þess að þurfa í dag 2016?
Ég á aldraðan föður sem hefur alla sína ævi verið hress og heilbrigður og hafði aldrei farið til læknis fyrr en fyrir 2 árum, eftir andlát móður minnar, þá fór hann að kenna sér meins í hjarta og víðar og fór á spítala, þar fannst ekki skrifaður stafur um hann, enda ávallt getað haldið sig heima, án lyfja og lækna. Hann fór í meðferð við krabbameini og sl. sumar og var svo slappur, að hann gat ekki verið heima eftir nokkrar tilraunir til þess. Hann endaði á Landakoti til endurhæfingar og var þar, þar til núna í janúar, en þá var hann orðin leiður og langaði að kíkja heim til sín, enda ekki komist heim um jól eða áramót. Nú hann var síðan of slappur og lasin til að komast aftur á Landakot og viti menn, þá var hann bara útskrifaður. Hann var of veikur til að komast á spítalann og því bara útskrifaður.
Við fengum að tala við félagsráðgjafa Landakots, sem tjáði okkur að við þyrftum að sækja strax um hjúkrunarheimili og skrifa undir fyrir hans hönd svo umsóknin kæmist strax í ferli. Ég skrifaði undir fyrir hans hönd, og var þeirri umsókn synjað strax á þeim forsendum að hann hefði ekki skrifað undir sjálfur. Félagsráðgjafinn tjáði okkur einnig að 200 manns væru á biðlista eftir hjúkrunarheimili, 100 sem væru innlagðir á spítala og 100 aðrir sem væru heima. Einnig sagði hún okkur að hún vildi bara vera hreinskilin og að einungis 30% þeirra á biðlistanum kæmust inn á þessi hjúkrunarheimili, hinir 70% lifðu ekki biðina af.
Nú er faðir minn í dag 87 ára gamall og er heima, hann getur ekki farið hjálparlaust fram úr rúminu og hann getur þar af leiðandi ekki náð sér í vatnsglas, hvað þá annað, hann á erfitt með að rísa upp úr rúminu. Hann fær heimahjúkrun og mat sendan í poka sem hengdur er utan á hurðarhún íbúðarinnar. Hann getur ekki sótt matinn. Við fengum synjun númer 2 á umsókn um hjúkrunarheimili á þeim forsendum að ekki væri komin nægjanleg reynsla á veru hans heima. 2 mánuðir rúmfastur eru ekki næg ástæða að þeirra mati til þess að samþykkja umsókn, hvað þá koma honum í þessa bið, ef hann yrði nú einn af þessum heppnu 30% sem komast inn fyrir andlát.
Ágætu drengir (og stúlkur) á Alþingi, þíð eigið eftir að eldast ef guð lofar og þið munið vilja fá að eldast með reisn og ekki vera uppá aðra komin. Ef þetta verður til að vekja ykkur til umhugsunar þó ekki væri, nema til að minna ykkur á það að þið eigið eftir að lenda í þessum "ruslflokki" sjálf.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)