Það sem maður þarf að vara sig á í Kína

Það er margt mjög skrítið hérna í Kína og öðruvísi en við eigum að venjast, það er nánast ekki hægt að fara í búðir, það er nánast ráðist á mann með hjálpsemi reikna ég með, þar sem ég skil ekki neitt og svo eru teknar upp myndavélar og barnið myndað hægri vinstri og kallað á alla sem vinna í næstu deildum að koma og skoða fyrirbærið með stóru augun og fólk er ekkert að hika við að pota í hann og fikta í hárinu og fótunum hans. 

Hérna sér maður alveg 5-6 saman á mótorhjóli og mótorhjól með svo mikinn farangur að það sést ekki í ökumanninn og maður bíður bara eftir því að hjólið fari á hliðina, en þeir eru snjallir að halda þessu uppi og verður maður bara að passa sig að vera ekki fyrir, því annars er voðinn vís og ekkert heyrist í þessum hjólum þar sem þau eru öll rafknúin.

Hérna í Nantong virðist vera lítið um útlendinga og maður þarf að vera smá frekur og leyfa þeim ekki að pota í börn og mann sjálfan og taka myndir af manni og maður þarf að leysa upp hringinn sem þeir búa til í kringum mann óhræddur. Líka þegar þeir troðast fyrir framan mann og nánast henda manni útaf sporinu, þá þarf maður að láta heyra í sér. Þeir láta alltaf heyra í sér og bílamenningin hérna er stórkostlega hávaðasöm, en það er eins og þeir noti flautuna bara af því bara. Það er enginn að virða umferðarreglur hérna, svo maður verður að þjóta á milli bíla á grænu, því þeir "taka réttinn" ef einhver er.

Það er undantekning nánast að fá vörur sem eru ekki útrunnar hérna í Nantong alla vega, mér var nú bent á þetta af vinkonu sem sagði mér að passa uppá dagsetningarnar hérna og þegar ég fór að skoða var allt útrunnið í ísskápnum og öllum skápum, svo öllum ávaxtaskvísum barnsins var hent, hitt var prufað og síðan hent. Í búðinni í dag var verið að kynna þessar líka flottu lúxuspulsur, en já þær runnu út í feb. sl. ekki svo mjög gamlar en samt nógu aldraðar fyrir unna kjötvöru.

Vatnið er varasamt og skal ekki drekka það ósoðið og meira að segja er manni bent á að bursta ekki tennurnar úr vatninu. Einnig er sagt að ávextirnir séu varasamir vegna skordýraeiturs en ég nenni nú ekkki að hlusta á það, veit ekki betur en við kaupum frá Asíu allskonar ávexti, svo ég tek sjensinn. Læt ykkur vita ef ávöxtur verður mér að falli.


Byrjendamistök í Kína

Ég er að byrja að fóta mig hérna í Kína, margt öðruvísi og sérstaklega stafirnir hérna og verst að flestir matsölustaðir eru bara með matseðil á kínversku. Þannig var það í gær að við fórum á stað sem var með mjög girnilegan mat að sjá og við fórum inn og allt fullt af þjónustufólki í kringum okkur svona uþb.7 manns, en enginn þeirra talaði ensku svo það var mjög erfitt að panta vatn venjulegt vatn, þrátt fyrir listilega teikningu af vatni í flösku af minni hálfu fengum við volgt vatn í stáldollum, stórar flöskur af bjór og fullt fat af froskalöppum í hvítlauk, chili og engifer og smá lauk til að deyfa sterka bragðið, held ég hafi talið 20 hvítlauksrif. Þetta var allt í lagi á bragðið smá sterkt, þannig að stóri bjórinn kom sér vel, ekkert var nú vatnið hvort sem var.

þegar við komum út sáum við að það voru alla vega 2 styttur af froskum í súpermannbúningi fyrir utan staðinn og Mikka mús eyrun sem starfsfólkið var með hafa sennilega átt að vera froskaeyru, en þegar maður eru þreyttur og svangur tekur maður ekki eftir slíkum viðvörunum. Alla vega þá er ég búin að borða slatta af froskalöppum í Kína.

Kvöldmaturinn var líka mislukkaður í alla staði, en við keyptum súpu sem leit mjög vel út í pottinum hjá konunni hérna á horninu sem talar ensku, skilur kannski ekki allt, en talar smá. Þegar heim kom með súpuna þá var þetta sjávarréttatómatsúpa með heilum uggum og beinum og smokkfiski. Soðið var ágætt en ég sleppti uggunum og draslinu sem var í súpunni, með þessu borðuðum við "Vongole" klatta og innbakaðar sardínur eða einhverskonar fiskadínur litlar voru þær alla vega. Ég endaði kvöldið á því að panta mér frappucchino á Starbucs og fékk passiondrykk með graskeri og mango. Ég ætla að finna mér app sem þýðir frá ensku yfir á kínversku, nenni þessu rugli ekki meira.


Kína fyrir byrjendur

Við lentum í Kínna um 7 leytið að staðartíma, eftir 16 tíma ferðalag, með stoppi í Frankfurt, þó við værum með lítinn tæplega 2 ára gaur með okkur gekk ferðin frábærlega vel og í 11 tíma flugi frá Frankfurt til Shanghæ var gaurinn til friðs enda með 4 sæti, lagði sig í nokkra klukkutíma og var svo bara eins og viðskiptajöfur á ferðalagi með sín 4 sæti heilan poka af flugvélamat og stuffi fyrir sig einann.  Þegar við lentum tók á móti okkur hvílíkur hiti og raki og falleg rauð sól en það var eins og að stíga inn í gufubað þegar við stigum úr vélinni. Í móttökusalnum beið okkar bílstjóri sem sér um að aka manni dóttur minnar til og frá vinnu, en hann er að byggja olíuborpall rétt utan við Shanghæ. Áætlurnarstaður okkar var Nantong og bílstjórinn var ekkert að slóra get ég sagt, hann keyrði eins og kappakstursgaur og maður þurfti að halda sér í handföngin til að rúlla ekki út úr bílnum, svo talaði hann allan tímann um "sil Andalea and Yo Yo" sem við uppgötvuðum að var sr. Andrea and Giorgio sem er maður dóttur minnar og hans félagi. Íbúðin okkar er frábær á 2 hæðum loftkæld og rúmgóð í 20 hæða blokk og erum við á 9 hæð. Við þurftum að skrá okkur í hús hjá lögreglunni sama dag og við lentum, því annars er maður ólöglegur hérna, svo það var lítið skemmtilegt í hitanum eftir þetta ferðalag og í grenjandi rigningu fórum við með bílstjóranum knáa í það mál, það tók 2 tíma eða svo, ég sofnaði á staðnum. Hérna fyrir utan er allt fullt af matsölustöðum og ég hef aldrei séð jafnmikið af rafmagnsbílum og hjólum svo maður heyrir lítið sem ekkert í bílaumferð hérna, þó ekki sé þverfótað fyrir hjólum og bílum. Þeir leggja allstaðar svo þú gengur ekkert auðveldlega með kerru, enda er það eitthvað fyrirbæri hérna, enda börnin svo lítil að þau hanga bara á forledrum sínum eins og viðhengi, fólk kemur og skoðar kerruna og potar í litla gaurinn okkar alveg óspart og hlær og tekur video af honum, finnst hann sjálfsagt vera fullvaxinn, enda mjög stór m.v. kínversku börnin. Núna er mjög heitt í Nantong um 35 stiga hiti og mikill raki(alls ekki gott fyrir hár sem krullast í raka) og það er best að halda sig inni yfir miðjan daginn. Hérna hef ég ekki enn séð til sólar vegna mengunar og raka, en hitinn er samt alveg nægilegur þó ekki skíni sól á mann líka.  Þetta verður spennandi að uppgötva Kína svona fyrir nýgræðing eins og mig. Hlakka til.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband