Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Mæðradagurinn

Í dag er mæðradagurinn og allir keppast við að vera góðir við mömmur sínar og ömmur, þeir sem ennþá eiga mömmur, en við eigum nú flest bara eina mömmu. Ég missti mína mömmu fyrir u.þ.b. mánuði síðan og sakna hennar mjög mikið og sérstaklega  í dag á mæðradaginn, en ég fór nú oftast með blóm til hennar og köku á þessum degi, í gegnum tíðina.

Ein góð vinkona mín sagði við mig fyrir nokkrum árum, ef við erum góð við foreldra okkar, þá auðveldar það svo missinn, þegar þau falla frá. Ég veit það nú ekki alveg í dag finnst mér missirinn erfiður, en þó hlýtur manni að vera rórra í hjartanu, hafi maður verið til staðar og gert sitt besta meðan foreldranna nýtur við

Svona daga,sem eru hugsanlega uppfundnir af blómasölumönnum, eigum við að vera þakklát fyrir og ættu að ýta undir okkur með að sinna því sem máli skiptir í lífinu, sem eru foreldrar okkar.

Mamma Stenna katla og petra

Mömmur elska börnin sín án skilyrða og ekkert er þeim óviðkomandi, hversu smálegt sem það kann að virðast og það að geta talað við mömmu sína um allt og ekkert og hún sýnir öllum málum jafnmikinn áhuga eins og um lausn á heimsmálunum væri að ræða, er ómetanlegt.

 Verum góð við foreldra okkar og sýnum þeim virðingu og ást, því við erum það í dag, sem þau hafa gert okkur að og eigum við þeim allt að þakka.

Elsku mamma mín var yndislegust allra og sakna ég hennar alveg ofboðslega í dag.  Takk fyrir svona daga, þeir vekja mann til umhugsunar, með eða án blóma. 


Hin ýmsu "skeið" hryðja

Sonur minn hefur farið í gegnum mörg "skeið" í gegnum tíðina og ég hef nú verið mismundandi hrifin, eða frekara sagt ekki hrifin.

Símastúlkan í fyrirtækinu sem ég vann hjá byrjaði snemma að "skrína" símtölin til mín frá honum, eftir því hvers eðlis þau voru en þegar hann fór í gegnum þvottaskeiðið, þá talaði hún bara við hann sjálf og þegar hann hringdi og sagði henni að hann ætlaði að skella í vél, þá sagði hún já hvítt sér og svart sér, svo ég lokaði allt mitt óhreinatau inní skáp, því ég vildi ekki sitja uppi með ponsulítil soðin föt. Þetta skeið stóð mjög stutt yfir.

Þá var það kertagerðistímabilið! Hann tók öll fallegu kertin mín sem ég hafði greitt fúlgu fjár fyrir í Tekk húsinu og bræddi þau saman og gerði miklu "flottari" kerti að hans mati (ég var ekki sammála).

Svo fóru símtölin að breytast, símastúlkan sagði venjulega: "Gulla mín, vertu alveg róleg, en sonur þinn var að hringja og það er allt í lagi með hann (þannig lagað séð) en hann skaut vin sinn í höndina með boga, eða hann festi höndina í hjóli og heldur að hann sé handleggsbrotinn.....keyrðu samt varlega heim". Það gerði ég hins vegar ekki.

Nú fór sá alskemmtileg tími í hönd að hann fór að breyta allskonar sprengjum (gera þær öflugri) eins og við hin notum flest óbreyttar á gamlárskvöld. Ég rak hann frá húsinu með þetta, reyndi alveg að banna honum að gera þetta,(hann hlýddi ekki) en hann fór upp að elliheimilinu í grenndinni í þeirri von að þau heyrðu síður hávaðann (hann var síðan látinn lesa fyrir gamla fólkið til að bæta fyrir skemmdir sem hann olli á húsinu).

Hann plataði ömmu sína til að kaupa bók fyrir sig í útlöndum og skrifaði nafnið á miða og sagði henni að bókin að héti cookbook, en sagði ekki að hún héti Anarkist cookbook. Þá hafði hann verið í kokkastuði í nokkra mánuði og okkur grunaði ekki neitt. Nú fór að færast fjör í símamálin mín: "Gulla mín, held þú ættir að skreppa heim" byrjaði símastúlkan....sonurinn var að spyrja hvað þýðir: "how to make a carbomb?" eða hvað þýðir: "how to blow up half a nation?" Ég keyrði heim sem óð væri, gargaði á hann, en hann spurði mig sakleysislega hvort ég vildi ekki að hann vissi hvað hlutirnir þýddu áður en hann hæfist handa við að gera nokkuð. Bókin hvarf svo með dularfullum hætti og hefur ekkert til hennar spurst síðar.

 


Hin magnaða Mílanó og íbúðarmálin þar.

Ég á dóttur sem flutti til Mílanó fyrir 4 árum til náms og hefur hún nú loksins fengið fasta íbúð, með smá "afarkostum" sem sé að eigandinn er með aðgang að einu herberginu, með konu og 2 börn, þegar hann er í Mílanó, en hann býr í Bern í Sviss og kemur reglulega til Ítalíu.

Fram að því að hún fékk þessa íbúð, voru íbúðarmálin hennar mjög skrautleg. Fyrsta íbúðin var þannig að hún var morandi í "bjöllum" hélt stelpan mín, mér sýndist þetta vera hinir mjög svo ekki eftirsóttu sambýlingar "kakkalakkar" en hún flutti þaðan eftir mjög stutta vist. 

naviglio.jpg

Þar sem þetta var árið 2007 gat hún fengið fína íbúð fyrir EUR 1000.- sem voru ISK 90.000.- í versta falli, en fór í 194 þús. árið 2008, en LÍN var ekki endilega að fylgja því eftir þ.e. raunveruleikanum, þannig að nú var bara að finna íbúð á 500 Evrur í hæsta lagi.

Dóttirin lá á netinu, fyrir hvert haustið að finna sér mannsæmandi herbergi/stúdíóíbúð, en sá háttur er á Ítalíu að þú þarft að fara gegnum skrifstofu og borga þeim eitt leiguverð fyrir það, og tryggingu og þess háttar, en þá ertu líka nokkuð viss um góða íbúð. Þetta er ekki fýsilegur kostur fyrir námsmenn, alla vega ekki eftir hrun, þannig að þá er best að finna sér íbúð sjálfur. 

Svo hún auglýsti! Vantar litla íbúð eða herbergi með aðgang að eldhúsi. Er námsmaður.

Flestir vildu mynd af henni! Mynd?? Af hverju vilja þeir mynd spurði hún sig? En svo fóru málin að skýrast svona smátt og smátt. Hún fann eina íbúð, sem henni leist vel á, enda ítalskur námsmaður sem auglýsti og staðsettningin rétt við skólann, hann sagðist vera með tveggja herbergja íbúð.

Hún fór vongóð út eftir jólin, með fasta búsetu í fyrsta sinn áður en hún kæmi á staðinn. Þegar hún svo mætti í íbúðina, voru 2 herbergi, þ.e. 1 herbergi og 1 stofa og 1 rúm. Hún átti sem sagt að deila rúmi með honum. Hvað!! Er eitthvað að því spurði hann??? Já þess vegna vildi hann mynd sem sagt. þar sem hún stóð fyrir utan húsið með ferðatöskur um mitt kvöld hringdi hún í mömmu sína, sem skiptir sér af öllu og googlaði gaurinn nánar og jú jú hann virtist eðlilegur, en fann þó mynd af honum þar sem hann kallaði sig "guy in fridge" já sem sagt ísskápamaðurinn...(hann ætlaði þó ekki að gista í ísskápnum)

guy.jpg

Nú var "ungamamman"  með plan B fyrir hana (vegna reynslu okkar á að hlutirnir voru sjaldnast eins og sagt var frá í auglýsingum) sem var bed and brekfast. Það húsnæði var ekki langt frá "ísskápsgaurnum" og þau hafði ég googlað og sá að þau voru kínversk og þar af leiðandi ekki í ítölsku mafíunni, heldur ekki ísskápsfólk, svo hún fór þangað um mitt kvöld. 

En þegar hjónin fóru í vinnuna klukkan 8 um morguninn,þá átti hún að fara út líka og mátti ekki koma heim fyrr en 8 um kvöldið, þegar þau voru búin að vinna.

Dóttirin rak upp stór augu og sagði ég þarf að fara í sturtu og svona.  Þá var amman fengin úr næsta húsi til að passa hana og sitja yfir meðan morgunmaturinn sem auglýstur hafði verið var borinn fram (kornflex og mjólk) og svo varð hún að fara út á götuna þarna í febrúar og hanga á netkaffi í leit að íbúð til klukkan 8 um kvöldið. Fólkið virtist hafa gengið úr rúmi fyrir hana, því þau gistu í stofunni, samt var þetta var auglýst á viðurkenndum íbúðarvef á Ítalíu. Það eru greinilega engar sérstakar kröfur gerðar til leigusala þarna.

Þetta leiddi til þess að hún tók fyrstu bestu íbúð sem hún fann staðsetta í Navigli sem er góð staðsetning og gat hún labbað í skólann og stutt í skemmtilegt götulíf. Sá galli var hins vegar á gjöf Njarðar að þessi íbúð hafði 2 herbergi. Hún leigði annað og einhver lúðraspilandi lögfræðingur hitt og saman voru þau með eldhús og bað.

Allt í lagi að deila íbúð saman, en það var ekki hægt að læsa herbergjunum, því þau voru bara með rimlagardínum til að loka sig af.

Þetta hefði eflaust gengið, ef gaurinn hefði ekki byrjað alla morgna á því að gera eftirfarandi:

Brjóta 5 valhnetur á eldhúsborðinu með kaffikönnu og hvílíkum látum.

Tala við sjónvarpið og fólkið sem var á skjánum og jafnvel reifst við sjónvarpsfólkið af fullri alvöru.

Æfa nokkra (MARGA) tóna (aldrei laglínu) á lúðurinn. Lúðraði næstum gat á hljóðhimnuna á mér.

Syngja sama lagið 3svar áður en hann fór í vinnu, (held að hann hafi verið með tourette)

Ég var þarna í þessari íbúð í viku, og var alveg úrvinda eftir vikuna. Því hann hvíldist ekki heldur um helgar heldur vaknaði fyrr en aðra daga og spilaði allan daginn á lúðurinn. Svo ætlaði ég alltaf að fara að svara honum, þegar hann öskraði á sjónvarpið. Hélt að hann hefði slasast eða eitthvað þvíumlíkt, en dóttirin var orðin vön þessu og stöðvaði mig.

trompetplayer.jpg

Endanlega gafst dóttir mín að lokum upp á þessu húsnæði,  þegar hann kvartaði undan hávaða frá lyklaborðinu á kvöldin þegar hún var að reyna að læra og  tók því uppá því að hækka sjónvarpið í botn og já eiginlega fældi hana þannig í burtu.

Þá var það næsta íbúð, sem hún fann hjá skólafélugum sínum.

Þar voru nokkrir strákar ítalskir, litlir mömmudrengir sem vantaði greinilega stelpu til að taka til (héldu þeir), en dóttir mín býr ekki yfir þörf fyrir að gera hreint í kringum önnur ungmenni en sjálfa sig, svo hún hélt sig mikið með íslensku stelpunum og gisti þar á gólfi frekar en að vera heima hjá sér. En þær voru á sama róli og hún með mismunandi erfiðum sambýlingum.

Sambýlingarnir hennar voru meira að skemmta sér en læra, þannig að það var party non stop heima við. Þegar hún svo kom heim til að sækja sér eitthvað fyrir skólann, var herbergið hennar fullt af fólki að hvíla sig. Hún uppgötvaði fljótlega að ekki var hægt að læsa herberginu að innan...heldur bara að utan. Ekki gott þegar menn eru ekki tilbúnir að vera með í partýinu stanslausa.

Svo nú eru málin leyst og þykir ekki mikið tiltökumál að fá 4 manna fjölskyldu every now and then inná sig í nokkra daga til viku.

Hún telst bara heppin.

 


Heimsókn í banka með "Hryðja"

Ég var ekki með börnin mín í pössun þegar þau voru lítil, nema hálfan daginn, þar sem frekar erfitt var að fá pössun fyrir "Skaðræðið" hann hafði verið rekin frá dagmömmu (þessi engill) eftir 4 daga, en ég viðurkenni að hann var örlítið fyrirferðamikill.

kiddi_stilltur.jpg

Ég var því oft í allskonar útréttingum með þau með mér, þegar ég var laus úr vinnunni. Ég fór dag einn í banka um mánaðarmót, en þetta var fyrir tíma þess sem allt var læst inni, gjaldkerar og tölvur og svoleiðis, meira svona allt uppá borðinu. (Vel fyrir hrun og svona)

Þar sem ég stend í röð, heyri ég allt í einu eintóna hljóð eins og tölvukerfið væri lasið, eiginlega eins og ýlfur, eða bíb hljóð. Kemur þá bankastjórinn fram og talar við gjaldkerana og snýr sér síðan að mér og spurði hvort það gæti verið að drengurinn minn hefði farið inn þar sem höfuðtölvan var geymd.

Nei sagði ég ósjálfrátt (fyrstu viðbrögð móður) var þegar þarna var komið sögu, ekki tilbúin að játa allt uppá hann (það kom síðar) enda var hann þarna bara uþb. 4 ára.

Hann kom hins vegar glaðbeittur og játaði brotið og sagðist hafa "snúð lyklinum" á stóru tölvunni niðri. Hann hafði sem sagt farið með einbeittan brotavilja og fiktað í höfuðtölvunni og slökkti í leiðinni á henni.

Ekki var hægt að afgreiða um sinn á þessum einstaklega skemmtilega degi um mánaðarmót. Já ég endurtek mánaðarmót sem í þá daga þýddi örtröð í banka, enda engin netviðskipti komin og maður þurfti bara að fara til gjaldkera með alla greiðsluseðlaog bíða í röð.

Ég sá mig knúna til að yfirgefa svæðið með "hryðja" litla og taka út öll mín viðskipti  úr meintum banka. 


Stóra "dvergamálið"

Ég hef oft lent í mjög vandræðalegum uppákomum með son minn hér á árum áður, enda er hann kannski með smá dass af fljótfærni úr móðurfjölskyldunni, þó ég sé nú búin að gera samkomulag við fyrrverandi maka um að allt sem aflaga fer hjá börnunum okkar sé runnið undan rótum föðurfjölskyldunnar, það getur verið gott að eiga svona "blóraböggul" til að nota í lífsbaráttunni.

hamrakiddi.jpg

Ég las oftast bókina um dverginn Daða fyrir börnin mín, áður en farið var að sofa, en Daði var þeim hæfileikum gæddur að geta látið sig hverfa, þegar hann lenti í vandræðum, þá skellti hann yfir sig húfunni sinni sem gerði hann ósýnilegan.

Maður áttar sig ekki alltaf á því hvernig barnshugurinn virkar, ekki átti ég von á því að hann héldi að allir dvergar væru eins og Daði dvergur.

  Þannig var að ég var að bíða í langri röð á pósthúsi og með "skaðræðið" með mér á hjóli með hjálpardekkjum, en hann var snemma farin að hjóla sjálfur. Dóttirin var í vagni fyrir utan stillt að vanda.

Þar sem ég stend í röðinni og bíð meðan "skaðræðið" mokaði upp úr eins og 2 blómabeðum, og færði mold frá einu beði í annað og megnið fór á gólifð. Ég tek það fram að ég reyndi að skamma hann og tala blíðlega og hóta og já já allt sem mér datt í hug, en ég var í mjög langri röð og búin að bíða með hitt barnið í vagni fyrir utan og það hvarflaði ekki að mér að gefast upp.(þá hefði ég aldrei framkvæmt neitt)

Nú kemur mjög lítill maður inn á pósthúsið og stendur í annarri röð og nú segir skaðræðið hátt og snjallt: "ertu alvöru dvergur?" litli maðurinn svaraði honum engu, enda bara að sinna sínum viðskiptum. Skaðræðið sá þá þann kost vænstan að komast að því með því að láta hann bara lenda í vandræðum, sem og hann gerði. Hann hjólaði á dverginn aftur og aftur, sem hvarf náttúrulega ekki. 

Litli maðurinn varð frekar pirraður, ég tek það fram að þegar þarna var komið sögu, eftir að hann hafði í millitíðinni hent blautum frímerkjasvömpum í afgreiðslustúlkurnar, lét ég eins og hann væri ekki á mínum vegum. Sá alveg á fólkinu hugsa: Já já svona krakki með sænskt uppeldi, mamman ræður bara ekkert við hann (hef alveg hugsað svona sjálf).

kiddi_litill.jpg

Þar sem dvergurinn hafði ekki horfið af yfirborðinu, þá kom hann alveg uppað mér og sagði: "mamma þetta er ekki ekta dvergur, hann hverfur ekki, þegar hann lendir í vandræðum" ég leit í aðra átt og óskaði mér að ég yrði að reyk. Hvað var þetta bráðókunna barn að segja við mig?

Mér varð ekki að ósk minni og hét mér að fara aldrei með hann neitt aftur. (sem gleymdist eftir hádegið sama dag enda barnið með englaásjónu á kodda) meira síðar!

 


"Hryðjuverkabarnið" kynnt til sögunnar

Fyrirsögnin kann að hljóma skelfilega og má vera að ég fái á mig barnaverndarnefnd, só bí itt. Ég á 2 yndisleg börn og eina fósturdóttur. Dóttir mín hefur alltaf verið prúð og pen (eins og móðurin) en sonurinn hefur nú ýmist gengið undir nöfnunum, hryðjuverkabarnið, skaðræðið, eða jafnvel glæpabarnið) og fósturdóttirin hefur nú alveg fengið "dass" af glæpagenum í sig (úr föðurættinni að sjálfsögðu)

Skaðræðið hefur farið með látum gegnum lífið og ég hef  oftar en ekki efast um að ég sé hæf sem móðir. Það eru ófá uppátækin sem hann hefur tekið uppá og það "besta" við þau að ég hef nú oftast fengið að vera óbeinn þáttakandi  í þeim verandi mamman.

Hann var mjög fyrirferðamikið og afkastamikið barn og á tímabili held ég að ég hafi ég verið álitin starfsmaður á Borgarspítalanum, því það var bara opnað fyrir okkur strax og við birtumst, enda oftast um svona sæmilega akút tilfelli að ræða eins og gleyptur slatti af  Nitroglyserintöflum, (sprenigtöflum) blátt barn með tappa fast í koki, hjól fast á hendi og ör í gegnum hendi svo fátt eitt sé nefnt.

Ég  sem vildi svo gjarnan vera hin fullkomna móðir, var alltaf að reyna að finna farveg fyrir athafnasemi "skaðræðisins",  skráði hann í handbolta, fótbolta ofl. en hann gleymdi sér alltaf í markinu og fór út að skoða flugur og svona þegar hann átti að verja. Hann varð ekkert vinsæll markmaður.

Bogfimi skildi það vera!! Hæfilega hættulegt og þar af leiðandi spennandi. Nú upphófst yndislegur tími, hann fór á æfingar tvisvar í viku  í  heilar 2 vikur og fannst hann nú nógu góður til að hefjast handa heima við. 

Ég fékk hringingu (sem áttu eftir að verða ófáar) í vinnuna og Kristín á símanum sagði. Guðlaug mín vertu alveg róleg (hún byrjaði snemma að "skrína" símtölin til mín) en sonur þinn skaut vin sinn í höndina með boga og nær ekki örinni út (það var eina áhyggjuefnið) svo þú þarft að fara heim. Keyrðu varlega sagði hún, sem ég gerði ekki.

Ég fór með slasaða vininn uppá spítala og "skaðræðið" í aftursætinu, því hann átti jú örina og vildi hana aftur. Vinurinn fékk stífkrampasprautu, enda með gat í gegnum höndina. Örin var tekin í gíslingu.

Skaðræðið var alveg hissa að hvað ég var pirruð, ekki var það ég sem tapað strýheilli ör. Vinurinn fékk mikla athygli útá gatið á höndinni, enda eins og gatið á Jesú.  þannig að skaðræðið mitt kom eiginlega langverst út úr þessu bogfimimáli að hans mati. 

Þetta er eitt brotabrot af skrautlegum ferli litla "hryðjuverkabarnsins" míns.


Fyrstu kynnin gleymast ei!

Ég var frekar rólegt feimið ungmenni,  var bara í Versló, skemmti mér hæfilega, kynntist mannsefninu mínu sem við skulum kalla X þegar ég var á tvítugsaldrinum, eða barnung leyfi ég mér að segja.

Ég var sem sagt nýbúin að kynnast Xinu þegar hann bað mig að koma með sér til vinar síns og konu, sem bjuggu í foreldrahúsum vinarins. Þau voru með húsið  á sölu og Xið ætlaði að hjálpa þeim enda smiður. Ekki málið sagði ég, en ég bíð í bílnum (feimin og svona). Ég beið og beið, að mér fannst heila eilífð, en þar sem sambandið var á byrjunarstigi sýndi ég ótrúlegt rólyndi, enda jafnaðargeðsmanneskja. (muna: venja hann af svona dónaskap síðar)

Svo fór þó að hann kallaði út og sagði mér að koma inn og slökkva á bílnum, en við vorum á mini couper bil mömmu hans. Slökkva á bílnum! Já væntanlega hefur hann meint taka lyklana úr og svona, sem ég gerði, en þá tók bíllinn undir sig stökk, og hentist yfir grindverkið sem var á milli mín og garðsins. Ég náði lyklinum út og kom labbandi með allan þann virðuleika sem ég gat miðað við aðstæður, með kúlu á enni, róleg og bein í baki (vel upp alin). Ég rétti Xinu lyklana og sagði svona útundan mér:  " hann rann smá"

Pabbinn kom skömmu síðar sótrauður í framan  og spurði Xið hvað bíllinn væri að gera útí blómabeðinu sínu og girðingin öll í henglum? Xið leit á mig og sagði: "hvað meinarðu með að bíllinn hafi runnið? Það er júlí!! ekki startaðir þú honum í gír?"

Ég þetta ljúfa sakleysislega man svaraði honum, ja ég veit ekki alveg hvort ég startaði honum, en ég náði ekki lyklinum svo ég sneri honum kannski smá, ég var svoldið titrandi í röddinni og við það að fara að gráta, en bílnum var bakkað úr blómabeðinu og Xið  kippti  girðingunni í lag, ég róaðist smátt og smátt og hélt áfram að vera settleg og pen og eins frambærileg og ég gat.

 Foreldrarnir voru að fara í leikhús og okkur var boðið í mat og bjór og var ég nú ekki vön bjórdrykkju og örlítið  trekkt eftir magnaða innkomu mína í líf þeirra, svo ég drakk ansi mikið og varð ég nú svona líka illa lasin, að ég kastaði upp á baðherberginu, í vaskinn, baðkarið og já á hurðina, sofnaði svo á gólfinu, enda þreytt eftir allt álagið og pressuna sem hafði verið á mér.

Þegar foreldrarnir komu heim var farið að leita að mér og þurfti að brjóta upp hurðina, þar sem ég svaf eins og engill, en mér var komið fyrir í rúmi foreldranna og farið með mig heim um nóttina.

Ég gat ekki beðið með að hitta þau aftur!

 


Um sjálfa mig.

Þegar maður tekur ákvörðun að blogga og hleypa þar með fólki í líf sitt, finnst mér ég þurfa að skilgreina manneskjuna á bak við skrifin. Þar sem ég segist vera af óræðum uppruna, má ekki svo skilja að ég viti ekki hvaðan ég er, nei alls ekki.  Ég á föður sem er hávaxinn, bláeygður og ljós yfirlitum og móður sem er alger andstæða þ.e. svarthærð, brúneygð með brúna húð, og er hún rétt rúmlega málbandið á hæð eða rétt um 150+cm ef vel er teygt úr henni.

Mamma mín er ættuð að austan og þar eru náttúrulega frönsku genin komin og er öll hennar ætt lágvaxin og svarthærð með brún augu og jú jú þennan líka svakalega fallega ljósbrúna húðlit. 

Ég aftur á móti fékk dass af albínisma í mig, en það þýðir að ég er með gölluð litagen, ég er ljósrauð á litinn og albinóinn lýsir sér þannig að ég þarf að skilgreina hálsinn frá hárröndinni með því að teikna alla aukahlutina á mig sem virðast að öðrum kosti vanta í andlitið.  Ég er samlit í framan og liturinn rennur útí eitt, þar til ég hef teiknað eftirfarandi: 2 stk. augabrúnir (verða oft mislangar og misbreiðar þar sem enginn litur er til að fara eftir) Augnahárin, hvít fyrir möskurun ef það orð má nota. Teikna svo varirnar og þá er ég komin. Flestir koma bara með þessa aukahluti með sér og þurfa aldrei að skilgreina svæðið milli hálss og hárs.

Ég á stóran hóp systkina og erum við eins og mislitur sauðahópur, enginn hefur sama háralit, og enginn hefur sama augnlit, og öll hafa þau fallegan húðlit. Ekki ég, ég verð rauð í sól, svo verð ég ennþá rauðari og svo verð ég aftur fölbleik og enda stundum beislitiðuð í besta falli og þá svæðisskipt (sjá mynd sem gæti vel verið ég eftir sólbað)ye8ia

Ég er fljótfær, seinþroska, hvatvís, brussa sem framkvæmi áður en ég hugsa. Ég á stóran frábæran vinahóp, á öllum aldri, enda þó ég sé á jafnaðaraldri eins og ég kýs að kalla það, (þ.e. á jafnmikið eftir og ég hef lifað fram að þessu) þá er ekki laust við að ég telji mig fyrirbura í þroska og finnst oft að ég hafi fæðst svona 27 árum fyrir tímann. Flestir vina minna koma úr bankageiranum og eru einstaklega skemmtilegt fólk, sem þolir mér seinþroskann og fljótfærnina.

Ég á svo tvö börn og nokkur lánsbörn sem ég skilgreini kannski síðar. Ég er sem sagt  hálfgerður hobbiti eða 164 og hálfur cm með dass af albinóa í mér og þar hafið þið það. Góða helgi!

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband