Markaðsdagur í Capoterra

Í dag var markaðsdagur í bænum Capoterra sem er næsti bær við Pula, þar sem við gistum og reyndar sami bær og meint brúðkaup dótturinnar mun fara fram eftir 10 daga.  Hérna yfir öllu liggur jasmínlyktin í loftinu, enda jasmíntrén í blóma og mikið búið að rigna undanfarnar 2 vikur svo allt er í blóma hérna. 

Jasmínlyktin blandaðist saman við sítrónu og lavanderlykt á markaðnum og var ys og þys á þar og húsmæðurnar að kaupa sér grænmeti, ávexti og krydd fyrir vikuna og ég get sagt að þar er ekkert handahóf á valinu, allt vegið og skoðað og metið og smakkað að lokum fyrir kaupin. Ég keypti uþb. 1 kg. af blóðappelsínum og var rukkuð um heil 99 cent ekki einu sinni evru, mér fannst varla taka því að borga það, sama var með laukknippið og steinseljuna, fékk fangið fullt af henni og skoða nú á fullu uppskriftir með steinselju. Blóðappelsínurnar eru svo safaríkar og sætar að það þarf 2 appelsínur í fullt glas af safa. Gaman að kaupa svona ferska ávexti og grænmeti það er svo ólíkt því sem við eigum að venjast vegna flutninga milli landa á þessum vandmeðfarna mat. 

Hérna í garðinum er heilt rósmaríntré, en ég leitaði í öllum pottum og beðum eftir einn rigningardag af rósmarín, hvarflaði ekki að mér að "barrtréð" sem var hérna væri rósmarín, en hvað veit maður svo sem, ég kaupi þetta í plastbakka dýrum dómum, hérna vex líka mynta og basilíka svo ég tali nú ekki um lavanderið sem allt angar af núna í bland við Jasmínluktina svo yndislegt er að sitja hérna  úti á verönd og lesa.

Ég fór sem sagt á markaðinn með það fyrir augum að kaupa mér strandhandklæði, þar sem hérna hefur verið 23 gráður og hitinn farið talsvert hærra suma dagana og sól á köflum og langaði mig á ströndina. Strandhandklæði núna spurði sölumaðurinn í handklæða og viskustykkjabásnum? Já sagði ég "Il sole" og benti honum á sólina. Nei það kemur ekki sumar fyrr en 1. júní, komdu þá sagði hann og renndi upp úlpunni sinni í 26 stiga hitanum. Ég fékk mér ís.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband