Brúðkaupsundirbúningur

Hérna hjá okkur á Sardeníu er dóttirin og tilvonandi tengdasonur á fullu í brúðkaupsundirbúningi og var í gær svona undirbúningsmatarkynning á matnum sem á boðstólnum verður í sjálfu brúðkaupinu. Við mættum á Hótel Saint Lucia í bænum Capoterra sem er næsti bær við Pula, lítill og sætur bær. Hótelstjórinn stelpa á sama aldri og dóttir mín, fór með okkur í gegnum alla réttina og þjónar og kokkar kepptust við að upplýsa okkur um innihald og framreiðslu. Held varla að ég hafi áður verið svona södd, en það er með ólíkindum hvað þessar ítölsku konur eru grannar m.v. þessa daglegu 8 rétti eða svo, sem hérna eru borðaðir.  Fyrst voru það forréttirnir sem verða boðnir fram hjá sundlauginni með fordrykknum, 6 réttir þar þurftum við að smakka.  Þá voru það forréttirnir sem verða á borðunum þegar inn er komið eftir athöfnina í garðinum, nokkrar ostategundir, parmaskinka og Salami þeirra Sarda sem er mjög sterk pylsa. Nú þá var komið að nokkrum pastaréttum, og þá var ég orðin södd, en lét mig hafa mjólkursvínið eins og þeir kalla litlu barnasvínin sem er þeirra eftirlæti. Það var frábært á bragðið og svo var það kaka og líkjör og þá kaffi og Limonchello og að sjálfsögðu var hvítvín og rauðvín með matnum. Ég reikna með að þurfa að hringja í Sjóklæðagerðina og biðja þá að sauma brúðarmóðurkjól með þessu áframhaldi, en þar sem ég skildi eftir smávegis af nokkrum pastaréttum, þá kom kokkurinn með angistarfullan svip og spurði mig hvort þetta væri vont. Nei nei molto bueno sagði ég og reyndi að skýra væntanlegt vaxtarlag mitt. Hann skildi mig ekki. Ég fékk ekstra mikið af svíninu, hann hefur ætlað að kanna hvort ég yrði svona ósvífin að leifa því líka. Sagði ekki orð við dótturina sem rétt bragaðaði á réttunum, enda alvön hafandi búið í landi pastaréttanna í 8 ár.

Daginn eftir fóru þau að panta hringana og höfðu reyndar sent hringasmiðnum myndir nokkru áður, en hann sagðist vilja hitta þau aftur og þau mundu þá borga 600 evrur inná hringana. Þau mættu og allt klappað og klárt en hann reyndist ekki vera með posa. Ekki málið sagði hann, skreppið þið bara í apótekið hérna á horninu og borgið honum 600 evrur. Já ég skil, sagði dóttir mín sem skildi alls ekki. Hvað átti hún að segja við apótekarann...ég er að kaupa hring hérna rétt hjá og ætla að borga hann hérna. Apótekarinn var greinilega vanur þessháttar sendingum og sagði ekkert mál, ég borga bara Alfonso og málið dautt.  Ekkert verið að flækja málið, þau spurðu hvort þau fengju kvittun fyrir Alfonso hringasalann. Nei nei alls ekki, ég borga honum bara seinna sagði apótekarinn. Núna eru þau að smakka tertu, ætli þau þurfi að fara á heilsugæsluna til að borga hana maður spyr sig?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband