Hefðir

Tilvonandi tengdasonur minn tilkynnti mér það um daginn að ég mætti ekki láta mér bregða, þó rúmlega 90 ára gömul amma hans kæmi öll svartklædd með svarta slæðu í brúðkaupið, sem haldið var sl. sumar. Ég hélt nú ekki að það mundi neitt skaða svartklæddsþenkjandi íslendinginn en spurði samt af hverju, þar sem ég er mjög forvitin um siðina þeirra á eyjunni. Mér finnst þeir svo gamaldags en þó svo sjarmerandi á sinn sérviskulega hátt. Nú sú gamla er ekkja svaraði tengdasonurinn. Það er nú eðlilegasti hlutur í heimi sú gamla að syrgja afa þinn og hvenær dó hann svo vildi ég vita. Það eru svona 10-12 ár síðan, en hún þarf að vera svartkædd allt sitt líf á mannamótum þar sem hún er ekkja. Ef hún giftir sig aftur (ekki líklegt þar sem hún er 90 ára) spurði ég. Nú þá getur hún verið villt og sett á sig litaða slæðu, en annars erum við alls ekki ströng með þessar hefðir hérna í bænum eins og inní miðri eyjunni, þar er farið eftir hefðum og engu breytt "ALDREI". 

Bróðir tilvonandi tengdasonar míns er að byggja hús ásamt kærustu sinni, þau eru búin að vera að byggja þetta á Sardenískum hraða og hefur byggingin tekið um 12 ár, þetta er reisulegt hús og hann ásamt föður sínum smíða á kvöldin eftir vinnu og um helgar. Þau búa í sitt hvoru lagi eða bæði í foreldrahúsum, þó komin séu vel á fertugsaldurinn. Þó er mamman ein taugahrúa, þar sem flutningur litla sonarins nálgast óðfluga eða væntanlega á þessu ári eða því næsta.  Ég velti upp þeirri spurningu af hverju hún hjálpaði ekki til kærastan og borgaði bara á móti honum, svo þau gætu nú flutt fyrir fimmtugt. Nei nei það er ekki hefð fyrir því. Konurnar koma ekki nálægt sjálfu húsinu, en þær hins vegar kaupa innbúið og eldhúsinnréttinguna. Ég benti á hið augljósa að við hugsanlegan skilnað þá fengi hún þá allt innbú og hann situr eftir með húsið. Nei nei þau skilja ekki, það er ekki hefð fyrir því. 


Bloggfærslur 14. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband