Kína fyrir lengra komna.

Ég er alveg að falla fyrir  Kína, það er svo fallegt hérna, svo gott, hjálpsamt og brosmilt fólk, gott veður núna í október um 20 stiga hiti, allt svo skemmtilega öðruvísi en maður á að venjast. Kínverjar eru einstaklega gjafmildir en við héldum uppá 2 ára afmæli barnabarnsins og var vinnufélugum tengdasonarins og þeirra konum og börnum boðið. Þetta voru aðallega kínverjar og ítalir. Gjafirnar sem barnið fékk voru svo flottar að maður var eiginlega orðlaus og jú allir komu með gjafir handa foreldrunum líka.  Kínverjar eru forvitnir og  spjalla við mann jafnvel  þó þeir sjái að maður skilji ekkert, þá eru þeir bara svo vinalegir að maður þykist skilja þá og spyrja og spyrja og taka „selfies“ af sér og  barninu okkar en þeim virðist finnast hann vera einstakur (sem hann náttúrulega er).

Það er skemmtilegt að fylgjast með því þegar þeir hefja vinnu á daginn þá safnast allir saman fyrir framan vinnustaðinn, hvort sem það er búð eða matsölustaður og fara með einhverja hvatningarmöntru og síðan syngja þau eitthvað lag sem dásamar stjórnina, held ég alltaf sama lagið heyrist mér og að lokum dansa þau, þetta er einhver hefð sem hefur haldið sér í áranna rás. Þegar við spurðum tengdasoninn hvort þetta væri svona á hans vinnustað þá sagði hann svo vera, allir mæta saman og syngja og dansa og fara svo glaðir inní vinnudaginn nú eða ekki, þar sem þetta er ekki valkvætt, gaman fyrir íslendinginn að sjá þetta samt.  

Hérna er stutt í allar áttir í Nantong og eiginlega allt á sama svæðinu milli síkja og stutt að labba allt, en stundum er nú þægilegt að taka leigubíl heim  með þreyttan lítinn gaur.  Erum búin að finna okkur uppáhaldsmatsölustað sem er auðvitað ítalskur og er nánast ítalskur matur á borðum, ítölsk vín en maður verður að passa sig, kaupa t.d ekki pizzu með önd, hún er með sætri hvítri sósu (held það sé glassúr) Maður þarf auðvitað að laga sig að þeirra venjum, eins og að borða kvöldmat fyrir 8 ef maður ætlar að borða úti en flestir staðir loka 9 á kvöldin og við virðumst alltaf vera síðustu gestirnir allstaðar, þeir borða einnig hádegismatinn uppúr 11 svo ef maður kemur eftir hádegi, þá getur verið úr fáu að velja og oftast er manni einfaldlega vísað út, þeir fara heim klukkan 14:00 stundvíslega svo helltu í þig drykknum og úðaðu í þig matnum eða skildu það bara eftir  því þeir eru sko að LOKA og svo leggja þeir sig bara á staðnum og ef þú ert þessi dóni að vera rétt fyrir lokun og ekki búin að borga þá eru starsmenn í öllum sætum sofandi, þeir leggja sig eða grúfa sig yfir borðið og sofna milli vakta. Fyrst hélt ég að þetta væru rónar, já já fordómar, en við eigum þessu ekki að venjast frá Evrópu að starfsfólk leggi sig bara innan um viðskiptavinina og hrjóti.

Sem ég segi er mér farið að þykja vænt um Kína, upplifun sem kemur sjálfri mér á óvart miðað við þessa heimsálfu sem margt er líka ekki eins gott og vænt eins og við eigum að venjast, en meira um það síðar.

Over and out

China girl


Gullna vikan í Kína

Þjóðhátíðardagur Kína er 1. október og í kjölfarið á honum er svo vikan sem kölluð er "Golden week" eða Mid Autumn fest, en þá fagna kínverjar haustinu og því hægt sé að vera meira úti við vegna veðurs og þá er ég að tala um að veðrið hefur kólnað það mikið að hægt er að vera úti án mikilla aukaverkana. Fram að október kallar maður gott að komast í búðina og heim með hálfa eldhúsrúllu í vasanum til að þurrka svitann úr augunum, en í því er líka mikill sparnaður, ég hef ekki málað mig að neinu ráði síðan ég kom hingað, andlitslaus og sveitt hefur verið mitt einkenni hérna í Kína fram að þessu. Nú verður bragarbót á þessu og maður hættir að þurfa að vera stöðugt með regnhlífina sem sólhlíf með sér, en skjótt skiptast veður í lofti. 35 stig í lok september og svo 20 stig í dag.

Já þessa viku frá 1-8 október þar sem sunnudagurinn kom upp á eftir vikunni náðu kínverjarnir sér í einn aukadag, þá voru rúmlega 142 milljónir manna á faraldsfæti en þetta er kannski svolítið eins og þakkargjörðarhátíðin í Bandaríkjunum, allir sem vettlingi geta valdið fara heim í fagra dalinn sinn og njóta vikunnar með fjölskyldunni. 

Hérna var allt þrifið í borginni, en er hún nú mjög hrinleg fyrir og hengd upp þessi týpísku kínversku ljósker út um allt fyrir framan húsið okkar var líka sett nýtt sett af  blómakerjum  og ég held að ég geti lofað því að fánaframleiðslan í Kína hlýtur að gefa nokkrum þúsundum störf, því hver ljósastaur er með 2 kínverska fána. Þeir sprengja mikið af flugeldum eins og ég hef áður komið inná, en þessa vikuna byrja þeir fyrr svona uppúr 5 að morgni og eru að sprengja þetta með svona hálftíma millibili allan daginn fram á nótt.

Það er svona hátíðarstemming yfir öllum og í fyrsta sinn síðan ég kom heyrði ég í sírenu nokkrum sinnum, en þeir eiga það nú til eins og allar þjóðir að drekka yfir sig af hrísgrjónavíninu sem þeir panta sér með matnum. Á þessu tímabili eru borðaðar "mooncakes" sem eru líka gefnar þessa vikuna hvar sem maður fer, en það er ekki máltíð hérna þessa vikuna nema mánakakan sé í desert. Mia kínversk vinkona okkar fjölskyldunnar kom með heilan flauelisklæddan kassa með gylltum kassa inní undir gafflana og nokkrum mánakökum að gjöf til okkar. Ég mun ekki segja skoðun mína á þessum kökum, en held að durian ávöxturinn viðbjóðslegi hafi verið aðaluppistaðan í þessu flottu kökum.

Nú er sem sagt allt komið í sínar réttu skorður og bílflauturnar komnar á fullt aftur, en það er ekki vegna óþolinmæði hef ég komist að heldur vegna þess að það heyrist ekkert í bílunum og þá ekki vespunum eða mótorhjólunum eða hvað þetta nú er sem þeir notast við yfirbyggðir kassabílar og fleiri furðutæki.

Sem sagt allt í hinu fína frá Kína!


Nantong Kína

Hérna í Nantong erum við að byrja að fóta okkur betur og átta okkur á staðháttum og svona allskonar sem við vorum óviss með fyrst, hvað er í lagi að  borða, hvað má drekka og hvað er í lagi að gefa barninu að borða.

Kínverjar eru afskaplega brosmildir og glaðir svona almennt, brosa og klappa höndum yfir okkur útlendingunum, sem stingum hérna verulega í stúf við alla.  Hérna er allt mjög hreinlegt og hef ég ekki séð hundaskít síðan ég kom hingað, frekar en tyggjó eða drasl á götum. Hérna virðist vera hlutverk eldri kynslóðarinnar að sópa göturnar og er fólkið oftast með svona kínastráhatta til að forðast sólina og strákústa til að sópa göturnar.

Þeir eru strangheiðarlegir og reyni maður að gefa þjórfé fær maður það bara til baka eins og maður hafi einfaldlega gert mistök, nema stöku leigubíll. Það kostar svona frá 150 ísl. krónum að koma sér í bæinn með leigubíl og undir 500 kr. að koma sér í stærsta mallið sem er svona í 25 mín. fjarlægð hérna, svo leigubíll er farartækið okkar hérna í Kína.

Hitinn er nú að lækka aðeins og er komin niður í 25 gráður, rakinn er þó um 90% svo menn eru sveittir við leik og störf. Það sem mér þykir skrítið er að hvergi er hægt að setjast niður og fá sér hvítvín, bjór eða kaffi, það eru tedrykkjustaðir, og staðir með te og ávöxtum hrist saman, en hvergi er hægt að setjast niður og fá sér bara að drekka í mollum og slíkum stöðum. Verður maður bara að venja sig á að drekka te, gengur ekki vel hjá mér. Ætla nú samt ekki að gleyma Starbucs sem er í öllum verslunarmiðstöðum, en þar hef ég ekki haft heppnina með mér. Bað um ískaffi og fékk expresso með klaka og bað svo um kaffi með bragði, fékk te með passionbragði. Gott var það ekki, en venst ekki te eins og rauðvín bara? Læt ykkur vita.

Hérna í Nantong eru sprengdir flugeldar daglega og þegar ég spurðist fyrir um ástæðuna þá var mér sagt að þetta væri gert til að fagna.  Brúðkaup, afmæli, íbúðarskipti og breytt vinna eru sem sagt allt ástæður þess að flugeldar eru sprengdir upp svo í rúml. 7 millj. manna borginni Nantong er flugeldasýning frá morgni til kvölds. Skrýtið á morgnana en fallegt á kvöldin.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband